Greifinn eignarhaldsfélag kaupir Hótel KEA og Hótel Hörpu
Síðastliðinn föstudag var gengið frá kaupum Greifans eignarhaldsfélags á Hótel KEA og Hótel Hörpu á Akureyri. Félagið hefur um nokkurt skeið haft rekstur þessara hótela með höndum en kaupir nú húsnæði þeirra með öllu tilheyrandi. Hótel KEA er næstelsta hótel landsins og er fyrir löngu orðið eitt af kennileitum Akureyrar.
Veitingastaður, 5 hótel og ráðstefnusalir
Rekstur Greifans er umfangsmikill en þrjú dótturfélög eru í eigu Greifans eignarhaldsfélags hf. Upphafið má rekja aftur til 27. janúar 1989 þegar fyrirtækið hóf veitingarekstur í Hafnarstræti 100 á Akureyri. Sumarið 1990 var fyrirtækið flutt í Glerárgötu 20 og hafinn rekstur veitingahúss undir nafni Greifans. Í ársbyrjun 1998 urðu kaflaskil í sögu félagsins en þá tók það á leigu allan veitingarekstur á Hótel KEA. Félagið er nú með í rekstri veitingastaðinn Greifann, með sæti fyrir 150 gesti og fimm hótel með samtals 226 herbergi, auk veitinga- og ráðstefnusala fyrir allt að 300 manns. Auk ofangreindra tveggja hótela er um að ræða Hótel Norðurland á Akureyri, Hótel Björk í Reykjavík og Hótel Gíg í Mývatnssveit. Reglulegur starfsmannafjöldi félaganna er um 150 manns.
Seljendur húsnæðisins eru Kaldbakur hf., KER hf., VÍS hf. og Flutningar ehf. Um verulega fjárfestingu er að ræða, eða um 500 milljónir króna, eftir því sem fram kemur í frétt af kaupunum.