Handbók Ferðamálaráðs, ÍSLAND 2002
Út er komin handbók Ferðamálaráðs, ÍSLAND, sem gildir fyrir árið 2002. Við viljum biðjast velvirðingar á því hversu seint bókin er á ferðinni en ástæðan er tæknilegs eðlis. Ráðist var í að skipta um gagnagrunninn sem bókin byggir á og reyndist það verk bæði flóknara og tafsamara en ráð var fyrir gert. Nýi gagnagrunnurinn gefur hins vegar mun meiri möguleika en sá eldri, sérstaklega þegar kemur að uppflettingu og leit í honum á Netinu, en sem fyrr er grunnurinn öllum aðgengilegur á heimasíðu Ferðamálaráðs.
Í gagnagrunni Ferðamálaráðs eru upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land. Má fullyrða að um er að ræða heildstæðasta gagnagrunn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Í grunninum er m.a. að finna ítarlegar upplýsingar um gistingu, þ.e. hótel, gistiheimili, bændagistingu, farfuglaheimili, sumarhús, skála og tjaldsvæði. Einnig skipulagðar ferðir af öllu tagi og samgöngur, s.s. rútur, báta, flug, bílaleigur, strætisvagna og leigubíla. Þá er þar að finna upplýsingar um opnunartíma safna um allt land, lista yfir það sem er á döfinni, golfvelli, veiði, sundlaugar, reiðhjólaleigur og hestaleigur. Loks má nefna ýmsar fleiri hagnýtar upplýsingar, svo sem um upplýsingamiðstöðvar, ferðaskrifstofur, sendiráð erlendra ríkja og ræðismenn, vegalengdir á milli staða og ýmislegt fleira.
Handbókin er mikilvægt uppflettirit fyrir þá sem starfa að skipulagningu hvers konar og upplýsingagjöf í ferðaþjónustu. Bókin hefur til þessa komið út tvisvar á ári en mun eftirleiðis koma út einu sinni og þá gilda fyrir allt árið. Er fyrirhugað að næsta bók, sem þá gildir fyrir árið 2003, komi út fyrir næstu áramót. Handbókin er seld í áskrift og fæst á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri. Nánari upplýsingar fást í síma 464-9990 eða með því að senda póst á netfangið upplysingar@icetourist.is