Handbók Ferðamálastofu 2008 komin út
Handbók Ferðamálastofu fyrir árið 2008 er komin út. Þetta er viðamikið rit en bókin er í raun prentuð útgáfa af gagnagrunni Ferðamálastofu sem geymir upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land. Einnig er að finna í bókinni ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir ferðafólk.
Skiptist í 7 kafla
Bókin skiptist í 7 kafla. Undir kaflanum Almennar upplýsingar má m.a. finna lista yfir upplýsingamiðstöðvar, ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, ræðismenn, sendiráð, náttúruverndarsvæði o.fl.
Annar kafli nefnist Á döfinni en eins og nafnið ber með sér er þar að finna lista yfir viðburði af ýmsu tagi um allt land.
Í 3. kaflanum, Samgöngur, eru upplýsingar um áætlunarferðir á láði, lofti og legi, bílaleigur, vegalengdir á milli staða, leigubíla o. fl
Ýtarlegar upplýsingar um Gistingu um allt land er að finna í 4. kafla og er honum skipt niður eftir tegund gistingar, þ.e. hótel, gistiheimili, bændagisting, farfuglaheimili, sumarhús, skálar og tjaldsvæði.
Afþreying er í 5. kafla og skiptist í alls 23 undirflokka. Þar má nefna flúðasiglingar, hvalaskoðun, hestaferðir, jeppa- og jöklaferðir, skíðasvæði, golfvelli, sundlaugar, veiði o.s.frv.
Sjötti kaflinn nefnist Menning & listir og geymir upplýsingar um söfn, sýningarsali, bókasöfn og skjalasöfn.
Í 7. og síðasta kaflanum eru almennar upplýsingar um veitingastaði þótt enn sé ekki um skráningu á einstökum veitingastöðum að ræða.
Mikilvægt uppflettirit
Handbókin er gefin út á íslensku og ensku og er mikilvægt uppflettirit fyrir alla þá sem starfa að skipulagningu og upplýsingagjöf í ferðaþjónustu. Bókin er seld í áskrift og kostar 6.000 kr. Afsláttur er veittur ef fleiri en eitt eintak er keypt.
Hægt er að panta bókina hér á vefnum. Panta Handbókina Ísland
Nánari upplýsingar fást á skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri í síma 464-9990 eða með því að senda póst á netfangið upplysingar@icetourist.is