Heildarfjöldi ferðamanna 2016
Heildarfjöldi erlendra ferðamanna var tæplega 1,8 milljón árið 2016 og er um að ræða 39% aukningu frá 2015 en þá voru erlendir ferðamenn tæplega 1,3 milljón talsins.
Langflestir, eða 98,6% af heildarfjölda ferðamanna, komu með flugi um Keflavíkurflugvöll, eins og farið var yfir með ítarlegri frétt í janúar. Sjá hér. Tæplega 20 þúsund komu með Norrænu um Seyðisfjörð eða 1,1% af heild og um 4.700 með flugi um Reykjavíkur-, Akureyrar-, og Egilsstaðaflugvelli eða tæp 0,3% af heild. Vert er að taka fram að tölur fyrir aðra staði en Keflavíkurflugvöll byggja ekki á talningum heldur mati út frá sölu- og farþegatölum.
Farþegar með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur voru 98.676 eða 1,5% færri en árið 2015. Áætlað er að um 96% af farþegum með skemmtiferðaskipum hafi viðkomu í Reykjavík.