Heildarfjöldi gistinátta á hótelum svipaður á milli ára
Heildarfjöldi gistinátta á hótelum á Íslandi árið 2002 var 770.258 en árið 2001 voru gistinætur 771.717 sem þýðir að örlítill samdráttur hefur átt sér stað í þessum flokki gistingar. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofunni. Hún birti í dag tölur yfir gistinætur í desember 2002 og jafnframt samantekt fyrir árið í heild.
Í tölum Hagstofunnar kemur fram að á árinu 2002 fjölgaði gistinóttum Íslendinga um tæp 6% en gistinóttum útlendinga fækkaði um tæp 2%. Í ágúst og september fjölgaði gistinóttum á hótelum en mánuðina október, nóvember og desember fækkaði þeim.
Samdráttur á höfuðborgarsvæðinu
Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í desembermánuði voru færri nú en árið 2001. Í desember síðastliðnum töldust gistinætur vera 23.738 en árið 2001 voru þær 28.089, sem telst rúmlega 15% samdráttur á milli ára.
Gistinóttum fækkar á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum
Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fækkaði gistinóttum samtals um rúm 12% í desember 2002 miðað við sama tíma árið á undan. Þar voru gistinætur 1.550 í desember síðastliðnum en árið 2001 voru þær 1.764.
Fjölgun á Norðurlandi en fækkun fyrir austan
Gistinóttum á Norðurlandi vestra og eystra fjölgaði um tæp 6% milli ára í desember. Gistinæturnar voru 1.326 í desember árið 2001 en töldust 1.401 síðastliðinn desember. Sé litið til Austurlands þá sýnir meðaltal síðustu fimm mánaða að gistinóttum fyrir austan fækkar um tæp 4% milli áranna 2001 og 2002. Þá á sér stað fækkun í ágústmánuði og nóvembermánuði en fjölgun í september, október og desember.
Enn fjölgar gistinóttum á Suðurlandi
Eins og flesta aðra mánuði ársins fjölgar gistinóttum á Suðurlandi. Þær voru 1.058 í desember 2001 en töldust 1.812 í desember sl., sem er aukning um rúmt 71%. Þá tvöfaldast gistinætur Íslendinga milli ára meðan gistinætur útlendinga eru helmingi færri en árið á undan.
Talnaefni
Töflurnar hér á eftir eru á vef Hagstofunnar. Þær eru settar upp í Excel-skjölum og því þarf Excel að vera tiltækt á viðkomandi tölvu svo hægt sé að skoða þær.
- Gistinætur á hótelum á Íslandi 1997-2002
- Gistinætur og gestakomur Íslendinga og útlendinga á hótelum í ágúst-desember 1997-2002
- Gistinætur á hótelum á Íslandi ágúst -desember 1997-2002
- Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í desember 1997-2002
- Gistinætur á hótelum á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum í desember 1997-2002
- Gistinætur á hótelum á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra í desember 1997-2002
- Gistinætur á hótelum á Austurlandi í ágúst-desember 1997-2002
- Gistinætur á hótelum á Suðurlandi í desember 1997-2002
- Framboð gistirýmis á hótelum eftir landsvæðum 2001-2002