Fara í efni

Heimavinnsla og sala afurða er víða ríkur þáttur í ferðaþjónustu

Heimasala 1
Heimasala 1

Handbók um heimavinnslu og sölu afurða var formlega kynnt á veitingastaðnum Friðriki V. á Akureyri í gær. Handbókin er afrakstur samstarfsverkefnisins Beint frá býli sem hefur að markmiði að stuðla að framleiðslu matvæla á sveitabýlum og milliliðalausri sölu þeirra til neytenda. 

Berglind Viktorsdóttir frá Ferðaþjónustu Bænda kynnir
handbókina.

Að verkefninu standa Bændasamtök Íslands, Ferðaþjónusta bænda, Hólaskóli, Háskólinn á Hólum, IMPRA nýsköpunarmiðstöð, Landbúnaðarháskóli Íslands og Lifandi landbúnaður. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra tók við fyrsta eintakinu af handbókinni.

Forsaga málsins er að samvinnuverkefninu Beint frá býli var hleypt af stokkunum í apríl 2005. Markmiðið var að þróa vörumerki, útbúa leiðbeiningar fyrir bændur og framkvæma tilraunaverkefni með þeim. Í lok janúar 2005 kynnti landbúnaðarráðherra skýrslu nefndar sem skoðaði möguleika ferðaþjónustubænda og annarra bænda á að selja sínar afurðir beint til kaupandans. Í nágrannalöndunum er það stór hluti af ferðaþjónustu að bændur og aðrir matvælaframleiðendur taka á móti ferðafólki og bjóði sínar vörur til sölu - ýmist á sveitabúðum eða bændamörkuðum. Slík matvælaframleiðsla er yfirleitt í smáum stíl og ekki stór hluti af heildarframleiðslu landa. Oft eru bændur að framleiða matvæli sem fæst töluvert hærra verð fyrir en stærri framleiðendur fá. Slíkt skapar virðisauka heima á sveitabýlunum þar sem matvaran er ekki seld óunnin í burtu.

Meginniðurstöður nefndarinnar voru að bændur á Íslandi búi við sambærilegar reglugerðir og bændur í nágrannalöndunum - en túlkun þeirra og framsetning mætti vera einfaldari og var það ein af tillögum nefndar hvetja til myndun félags sem ynni að þessum málefnum í samvinnu hluteigandi stofnanir og embætti hins opinbera, t.d. með útgáfu leiðbeinandi handbókar um starfsleyfi matvælafyrirtækja.

Samhliða kynningu handbókarinnar var opnuð ný vefsíða verkefnisins þar sem ýmsar upplýsingar er að finna, m.a. hina nýju handbók. Slóðin er www.beintfrabyli.is

Ólöf Hallgrímsdóttir sem rekur Vogafjós Café og Sigurður Steingrímsson frá Impru nýsköpunarmiðstöð eru bæði meðal höfunda handbókarinnar. Á myndinni eru einnig alþingismennirnir Einar Már Sigurðarson, Kristján Möller og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Guðni Ágústsson fékk afhent fyrsta eintakið af handbókinni og er hér með Friðriki V. Karlssyni veitingamanni.