Hin mikla ábyrgð ferðaþjónustunnar
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri skrifar álitsgrein í nýjasta fréttabréf NORA, Norrænu Atlantshafsnefndarinnar, þar sem hún fjallar um þá miklu ábyrgð sem ferðaþjónustan ber við að skapa og viðhalda þeirri ímynd sem norrænu löndin vilja hafa.
Ólöf bendir á að norrænu löndin hafa lengi verið tengd við hreinleika, gæði, sterka samfélagsgerð og félagslegt öryggi og að ferðaþjónustan gegni lykilhlutverki í að miðla og viðhalda þessum gæðastimpli. Því sé afar mikilvægt að sú mynd sem við viljum varpa út á við sé sönn og rétt. Í greininni fer hún síðan yfir nokkra þætti sem hún telur að ferðaþjónustan þurfi að taka mið af í þessu samhengi.
Öryggistilfinning, bæði í víðum og þröngum skilningi, er eitt það mikilvægasta sem við getum boðið ferðafólki í dag, segir Ólöf einnig í lok greinarinnar; að ferðafólk telji sig geta verið öruggt fyrir glæpum og slysum, að ferðamenn geti tjáð sig við heimamenn, að öruggt sé að ferðast með börn og að ef eitthvað komi upp á þá sé til staðar nauðsynleg þjónusta. Hér standi norrænu löndin afar sterkt að vígi.
Greinina í heild má lesa á vef NORA