Höfuðborgarstofa tilnefnd til evrópskra ferðamálaverðlauna
Höfuðborgarstofa (Visit Reykjavik) er meðal fimm markaðsskrifstofa borga sem tilnefndar eru í ár til verðlaunanna ,,European City Tourism Organisation of the Year?, eða Evrópsk markaðsskrifstofa ársins, og eru veitt af markaðssamtökum evrópskra borga (European Cities Marketing).
Markaðsskrifstofurnar í hinum borgunum fjórum sem tilnefndar eru ásamt Höfuðborgarstofu í Reykjavík, eru Wonderful Copenhagen í Kaupmannahöfn, Göteborg & Co í Gautaborg, The Mersey Partnership í Liverpool og Valencia Tourism & Convention Bureau íValencia. Frá þessu segir í frétt frá Höfuðborgarstofu.
Markmið verðlaunanna er að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur og fagmennsku meðal evrópskra borga og markaðsskrifstofa þeirra sem starfa að því að kynna sína borg sem spennandi áfangastað fyrir ferðamenn. Dómarar leituðu sérstaklega eftir markaðsskrifstofum borga sem leggja mikla áherslu á að koma til móts við þarfir ferðamanna, vinna að sjálfbærri þróun ferðamála og sýna fram á skilvirka notkun fjármuna og mælanlegan árangur í starfi.
Verðlaunaafhendingar fyrir Evrópska ferðamannaborg ársins og Markaðsskrifstofu ársins fara fram í fyrsta skipti í ár, þann 13. júní í Aþenu á ársfundi samtakanna. Í samtökunum sem tilnefna Höfuðborgarstofu eru 130 borgir frá 30 löndum og er því tilnefningin mikil viðurkenning á því starfi sem fer fram á vettvangi ferðamála hjá Reykjavíkurborg.
Um Höfuðborgarstofu
Höfuðborgarstofa tók til starfa í ársbyrjun 2003 og sinnir hún þríþættum verkefnum fyrir hönd Reykjavíkurborgar; almennum ferða- og kynningarmálum Reykjavíkur, rekstri Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Reykjavík. Höfuðborgarstofa ber auk þess ábyrgð á skipulagi og framkvæmd ýmissa lykilviðburða á vegum borgarinnar, s.s. Vetrarhátíðar, Ferðalangs á heimaslóð, Menningarnætur og fleiri ásamt því að stuðla að margbreyttri viðburðaflóru í borginni með ýmsum hætti.
Um European Cities Marketing
European Cities Marketing (Markaðssamtök evrópskra borga) eru aðildarsamtök 130 borga frá 30 löndum í Evrópu. Markmið samtakanna er að byggja tengslanet, efla samstarf og koma á framfæri hagsmunum ferðaþjónustunnar í evrópskum borgum.
Fyrir frekari upplýsingar sjá www.europeancitiesmarketing.com.
Um verðlaunin
European Cities Tourism veitir í fyrsta skipti í ár tvenn verðlaun, annars vegar fyrir Ferðamannaborg ársins (European Tourism City of the Year) og hinsvegar fyrir Evrópska markaðsskrifstofu ársins (European City Tourism Organisation of the Year). Höfuðborgarstofa er tilnefnd í seinni flokknum. Við val á Evrópsku markaðsskrifstofu ársins er tekið tillit til eftirfarandi í starfsemi skrifstofunnar:
· Leiðtogahæfni
· Stefnumótun: markmið, gildi osfrv.
· Samstarf hins opinbera og einkageirans
· Mælingar, greiningar og þekkingarstjórnun
· Markaðsherferðir
· Ýmis ferli s.s. innan vöruþróunar, gæðamála og upplýsingatæknimála
· Starfsmannamál
· Fjármálastjórnun
Dómarar fyrir verðlaunin eru þekktir og virtir einstaklingar úr alþjóðlega ferðageiranum:
· Paul Dubrule, Accor Group
· Robin Kamark, SAS
· Richard Tibbott, Locum Consulting
· Rolf Freitag, IPK International
· Elizabeth Jeffreys, Jersey Tourism