Hólaskóli stefnir að uppbyggingu náms í ferðaþjónustu á Grænlandi
Um þessar mundir vinnur ferðamáladeild Háskólans á Hólum að skipulagningu náms á sviði náttúru- og ævintýratengdrar ferðaþjónustu á Grænlandi. Baldvin Kristjánsson leiðsögumaður í Suður-Grænlandi var á Hólum nýverið og fundaði með forráðamönnum háskólans. Afrakstur heimsóknar Baldvins til Hóla var undirskrift viljayfirlýsingar um samvinnu við að koma verkefninu á koppinn. Næstu skref eru fjáröflun og vinna við námskrá. Stefnt er að því að námið fari af stað haustið 2008.
Forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja og atvinnuþróunarfulltrúar í Suður-Grænlandi (Qaqortoq Development Group) segja mikla möguleika í ferðaþjónustu á þessum slóðum en tilfinnanlegur skortur sé á menntuðu fólki í greininni. Fyrr á árinu var hér á ferð Tina Jensen, atvinnuþróunarfulltrúi Qaqortoq og kynnti sér starfsemi ferðamáladeildarinnar, en hún og Baldvin hafa verið í forsvari heimamanna fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunámsins.
Mynd: Baldvin Kristjánsson leiðsögumaður og Skúli Skúlason rektor undirrtita viljayfirlýsinguna.