Hópbílar hf. hlutu umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2006
Hópbílar hf. í Hafnarfirði eru handhafar umhverfisverðlauna Ferðamálastofu fyrir árið 2006. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti verðlaunin á ferðamálaráðstefnunni á Hótel Loftleiðum í dag.
Líkt og undanfarin ár var óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna jafnframt því sem innan stofnunarinnar er fylgst með því sem ferðþjónustuaðilar eru að gera í umhverfismálum. Í ár bárust 18 tilnefningar. Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a. að ?Allt frá árinu 2001 hefur fyrirtækið einsett sér að vera í fararbroddi í umhverfismálum og árið 2004 fékk það umhverfisstefnu sína vottaða skv. alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14001, umhverfisstefnan hefur verið yfirfarin og uppfærð árlega og er orðin hluti af stjórnskipulagi fyrirtækisins.?
Fyrirtækið Hópbílar hf. var stofnað árið 1995, helstu verkefni fyrirtækisins eru tengd ferðaþjónustu og öllum þeim sem vilja ferðast. Hópbílar er fyrirtæki sem með starfsemi sinni getur haft neikvæð áhrif á umhverfið, hinsvegar hafa eigendur og stjórnendur fyrirtækisins tekið þá meðvituðu ákvörðun að sýna samfélagslega ábyrgð að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem af rekstrinum leiðir.
Einkunnarorð fyrirtækisins eru: ÖRYGGI, UMHVERFI, HAGUR og ÞÆGINDI.
Með það að leiðarljósi hefur fyrirtækið lagt áherslu á að mennta starfsfólk sitt á öllum sviðum, bílstjórar eru vel með á nótunum hvað varðar öryggis og umhverfismál, haldin hafa verið ensku námskeið fyrir þá og margt fleira til að bæta þjónustu við viðskiptavini. Bílafloti fyrirtækisins er einn sá yngsti á landinu og í bílunum eru margvísleg þægindi og afþreying fyrir farþega.
Það er því í rökréttu framhaldi af vinnu og stefnu fyrirtækisins að unnið er að innleiðingu á alþjóðlegum öryggisstjórnunarstaðli, OHSAS 18001, stefnt er að vottun á honum árið 2007.
Hópbílar hf. hafa fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir starf sitt í umhverfismálum má þar nefna Kuðunginn fyrirtækjaviðurkenningu umhverfisráðuneytisins 2003 og viðurkenningu frá Fegrunarnefnd Hafnarfjarðar, 2005.
Mynd: Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti forsvarsmönnum Hópbíla viðurkenninguna en það voru þeir Gísli Jens Friðjónsson, Pálmar Sigurðsson og Jón Arnar Ingvarsson sem veittu henni viðtöku.