Horfur í ferðaþjónustu fyrir árið 2022 jákvæðar
Fjórða ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) fyrir árið 2021 var birt í gær en þar er fjallað um þróunina í ferðaþjónustu út frá fyrirliggjandi gögnum. Umfjöllun skýrslunnar snýst líkt og fyrri ársfjórðungsskýrslur ársins 2021 um hvaða áhrif COVID-19 er að hafa á ferðaþjónustu í Evrópu og ferðavilja fólks.
Í fréttatilkynningu ETC um útgáfu skýrslunnar kemur fram að Evrópa hafi séð 62% færri komur ferðamanna árið 2021 borið saman við árið 2019. Flugfarþegar voru nærri 1,5 milljarðar færri til, frá og innan aðildarlanda Eurocontrol* árið 2021 en árið 2019 og nam tap flugfélaganna 18,5 milljörðum evra á árinu 2021.
Eftirspurn í ferðaþjónustu 20% minni í ár en fyrir heimsfaraldur
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að þrátt fyrir að útbreiðsla ómíkron-afbrigðisins komi í veg fyrir bata í ferðaþjónustu á fyrsta ársfjórðungi í ár eru horfurnar í ferðaþjónustu fyrir árið 2022 heilt yfir jákvæðar. Farið er að slaka á ferðatakmörkunum í Evrópu og er ómíkron-afbrigðið ekki talin sú ógn sem faraldurinn var í upphafi. Spár gefa til kynna að eftirspurn í ferðaþjónustu verði 20% minni í ár en hún var fyrir heimsfaraldurinn. Gert er ráð fyrir að eftirspurn eftir innanlandsferðum verði meiri í ár en hún var fyrir faraldurinn en að ferðalög milli landa nái sér ekki á strik fyrr en árið 2024. Til samanburðar gerir Ferðamálastofa ráð fyrir 33% samdrætti í brottförum ferðamanna til Íslands í ár m.v. 2019 og að fjöldi ferðamanna á Íslandi muni ekki ná sér á strik fyrr en 2024 líkt og ETC gerir ráð fyrir.
Ferðamálaráð Evrópu gerir ráð fyrir að ferðalög Bandaríkjamanna til Evrópu muni fara í svipað horf tiltölulega fljótt og var fyrir heimsfaraldurinn. Ferðalög milli Bandaríkjanna og Evrópu hófust að nýju á fjórða ársfjórðungi 2021 sem mun flýta fyrir bata ferðaþjónustunnar í Evrópu á þessu ári. Mestur verður ávinningurinn fyrir lönd þar sem hlutdeild Bandaríkjamanna af ferðamönnum er hátt eins og á Íslandi, Írlandi, Bretlandi, Sviss og Hollandi.
Skýrslan er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Tourism Economics.
Skýrsluna má nálgast með því að smella hér.
*Flugumferðastofnun Evrópu