Hótel Borg í Conde Nast Traveller
Hótel Borg fær lofsamlega umfjöllun í hinu þekkta ferðatímariti Conde Nast Traveller. Eins og flestir vita er það eitt virtasta ferðatímarit í heimi og oft nefnt drottning ferðatímaritanna.
Í opnugrein í blaðinu er merkri sögu Hótel Borgar gerð skil en fyrirsögnin er ?Art Deco chills out ? Rodney Bolt checks out the Icelandic capital?s most classiest Hotel...? Eins og hún ber með sér er talsvert lagt út af innréttingum og útliti hótelsins og virðist blaðamaðurinn hafa verið einkar sáttur við dvöl sína. Jafnframt fær veitingastaðurinn Silfur jákvæða umsögn. Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keahótela sem reka Hótel Borg, segir ánægjulegt að fá slíka umfjöllun í tímariti á borð við Conde Nast Traveller og í því felist sannarlega verðmæti. ?Staðsetning og saga Hótels Borgar markar því vissulega ákveðna sérstöðu sem bera þarf virðingu fyrir. Á síðustu misserum hefur allt hótelið verið endurnýjað, jafnt innan dyra sem utan, enda viljum við standa undir þeim kröfum um gæði sem viðskiptavinir okkar búast við,? segir Páll.
Þess má geta að blaðamaðurinn, Rodney Bolt, kom hingað til lands á vegum Ferðamálastofu og Icelandair og gisti einnig á Hótel Búðum á Snæfellsnesi. Munu greinar hans um Ísland birtast í fleiri tímaritum á næstunni.