Hótel Tindastóll til liðs við Vakann
Mynd: Fyrirtækið er í eigu hjónanna Tómasar Árdal og Selmu Hjörvarsdóttur, sem hér eru á sitt hvorum enda myndarinnar.
Enn fjölgar í hópi gæðafyrirtækja sem ganga til liðs við Vakann. Hótel Tindastóll hefur nú lokið innleiðingarferli sem þriggja stjörnu hótel samkvæmt gæðaviðmiðum Vakans. Til hamingju Skagfirðingar!
Hótel Tindastóll er eitt elsta starfandi hótel landsins, en starfsemi hófst í húsinu á Sauðárkróki árið 1884. Húsið kom frá Noregi árið 1820 og var reist á Hófsósi en síðan fleytt yfir fjörðinn á núverandi stað. Hótel Tindastóll er með 19 herbergi, þar af níu í viðbyggingunni sem tekin var í notkun árið 2012.
Að sögn hótelstjóra hafa eigendur og starfsfólk Arctic Hotels ávallt haft það að markmiði að uppfylla væntingar gesta sinna með faglegri þjónustu: „Vakinn er framúrskarandi verkfæri sem við höfum nýtt okkur á þeirri vegferð“.