Hugmynda- og hvatningarþing um ferðaþjónustu í Austur Húnavatnssýslu
Laugardaginn 24.mars heldur sveitarfélagið Húnavatnshreppur hugmynda- og hvatningarþing um ferðaþjónustu í Austur Húnavatnssýslu. Þingið verður haldið á Húnavöllum og hefst klukkan 13:15. Ráðgert er að því ljúki kl 16: 30.
Í fréttatilkynningu segir að ferðaþjónusta í Austur Húnavatnssýslu hafi farið vaxandi síðustu ár líkt og í öðrum landshlutum. Svæðið er þekkt fyrir fjölbreytta möguleika í stangveiði, frábærar reiðleiðir og aðra útivistarmöguleika. Ein mesta útivistarparadís hálendisins, Hveravellir, er í sýslunni og þar stefna Húnvetningar á uppbyggingu og bætta þjónustu við ferðamenn á næstu misserum. Einnig er menningarferðaþjónustan að sækja á. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, Hafííssetrið í gamla Hillebrandtshúsinu, Kántrýþemað á Skagaströnd, Söguslóð Vatnsdælasögu, Þingeyrakirkja og Klausturstofa eru dæmi um menningarferðaþjónustu sem kveðið hefur að.
Mjög áhugaverðir fyrirlesarar munu halda tölu um þá möguleika sem ferðaþjónustan felur í sér. Eftir að sveitarstjóri Húnavatnshrepps setur þingið mun Kjartan Bollason frá ferðamálabraut Hólaskóla fjalla um tækifæri í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Þór Hjaltalín mun fjalla um ferðaþjónustuna frá sjónarhóli menningarferðaþjónustu . Elín Aradóttir og Sigurður Steingrímsson frá Imrpru Nýsköðunarmiðstöð munu kynna fyrir gestum þann stuðning sem Impra veitir atvinnulífinu. Inger Helgadóttir á Indriðastöðum í Skorradal mun segja frá sinni reynslu af uppbyggingu og rekstri ferðaþjónustu. Eftir framsöguerindi verða pallborðsumræður. Að hætti Húnvetninga má gera ráð fyrir fjörugum umræðum og efnilegum hugmyndum.
Þingið er öllum opið og kaffiveitingar verða í boði Húnavatnshrepps.
Þingeyrakirkja og Klausturstofa eru dæmi um menningarferðaþjónustu sem kveðið hefur að. |
Hveravellir. Þar stefna Húnvetningar á uppbyggingu og bætta þjónustu við ferðamenn á næstu misserum. |