Hvalaskoðun Akureyri í Vakann
Mynd: Guðlaugur Vignir Sigursveinsson, Sveinn Hólmar Guðmundsson og Sara Sigmundsdóttir með viðurkenningu Vakans.
Hvalaskoðun Akureyri er nýjasti liðsmaður Vakans. Fyrirtækið var sett á laggirnar á vormánuðum 2016 og gerir út hvalaskoðunarferðir allt árið um kring í Eyjafirði ásamt því að bjóða upp á Norðurljósasiglingar yfir vetrartímann.
Fyrirtækið er dótturfyrirtæki Eldingar Hvalaskoðun og því lá beinast við að huga vel að gæða- og umhverfismálum, að sögn Sveins H. Guðmundssonar. „Vakinn er frábært verkfæri til að aðstoða starfsfólk við að gera betur í gæða og umhverfismálum og stýra því inn á rétta braut. Því tökum við stolt á móti viðurkenningu Vakans á öðru starfsári fyrirtækisins og hvetjum alla til að taka skref í sömu átt,“ segir Sveinn.
Hvalaskoðun Akureyri gerir sem fyrr segir út hvalaskoðunarferðir allt árið um kring í Eyjafirði ásamt að bjóða upp á Norðurljósasiglingar yfir vetrartímann. Í ferðum sínum notar fyrirtækið bátinn Hólmasól sem var sérstaklega breytt til að gera upplifun gesta sem besta í hvalaskoðun. Nafnið er dregið af fyrsta barninu sem fæddist í Eyjafirði, Þorbjörgu Hólmasól.