Hvalaskoðun Reykjavík- Elding hlaut umhverfisverðlaun Ferðamálastofu
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru afhent í 14 sinn í dag. Þau komu í hlut Hvalaskoðun Reykjavík ehf. / Elding fyrir markvissa stefnu og fyrir að hafa sett sér það markmið að vinna að stöðugum úrbótum í umhverfismálum. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra afhenti verðlaunin á ferðamálaþinginu á Grand Hótel Reykjavík.
Fyrirtækið Hvalaskoðun Reykjavík ehf. / Elding varð til við sameiningu hvalaskoðunarfyrirtækjanna Hafsúlan hvalskoðun ehf. og Elding hvalaskoðun ehf. Sameinað fyrirtæki er stærsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins með 42 starfsmenn og fjóra báta sem gerðir eru út frá Reykjavíkurhöfn. Hvalaskoðun býður upp á marga valkosti til afþreyingar á Faxaflóasvæðinu s.s. hvala- og fuglaskoðun, eyjaferðir og sjóstangveiði. Að auki býðst gestum að heimsækja fræðslu- og upplýsingasetur fyrirtækisins sem staðsett er í gömlu loðnuskipi nálægt skrifstofu fyrirtækisins við Ægisgarð.
Eigendur og starfsmenn Hvalaskoðunar Reykjavikur hafa unnið að því með markvissum hætti í nokkur ár að bæta sig í umhverfismálum. Árið 2006 fengu bátar fyrirtækisins hið alþjóðlega umhverfismerki Bláfánann. Árið 2007 gekk fyrirtækið í samstarf við Íslenska Nýorku og tók þátt í vetnisverkefninu SMART-H2. Í lok október 2008 hlaut fyrirtækið síðan fulla umhverfisvottun hjá Green Globe 21, eftir að hafa unnið að því markmiði í tvö ár. Hvalaskoðun Reykjavík ehf. er með fyrstu hvalaskoðunarfyrirtækjum heimsins til að öðlast slíka vottun. Fyrirtækið ætlar þó ekki að láta staðar numið í umhverfismálum með þessu heldur muni það halda við vottuninni og bæta umhverfisstörf sín frá ári til árs. Umhverfimeðvitund fyrirtækisins sést best á mottói þess: ,,Mætum þörfum nútímans án þess að ganga á möguleika framtíðarinnar!?
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistamann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við ? til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.
Samkvæmt lögum um ferðamál og markmiðum ferðamálaáætlunar Iðnaðarráðuneytisins ber Ferðamálastofu að sinna umhverfismálum á ýmsan hátt. Eitt af hlutverkum stofnunarinnar er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til ábyrgðar í umhverfismálum. Sem partur af þessari viðleitni sinni veitir Ferðamálastofa árlega umhverfisverðlaun því fyrirtæki eða stofnun sem best þykir hafa staðið sig í umhverfismálum það árið. Verðlaunin voru fyrst veitt 1994 og er þetta því 14. árið sem verðlaunin eru veitt.
Á meðfylgjandi mynd eru talið frá vinstri: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Grétar Sveinsson, Rannveig Grétarsdóttir og Vignir Sigursveinsson, öll frá Hvaðaskoðun Reykjavíkur - Elding, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu.