Hversu vel var ferðaþjónustan í stakk búin til að takast á við niðursveiflu vegna heimsfaraldurs?
Ferðamálastofa tekur nú upp þráðinn þetta haustið í fyrirlestraröð sinni um áhugaverð rannsóknarefni sem unnið er að í ferðaþjónustu. Fyrsti fyrirlesturinn verður haldinn miðvikudaginn 20. október næstkomandi, kl. 12:10-13:00, í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála, RMF. Fyrirlesturinn verður að þessu sinni í streymi beint um netið og hann gerður aðgengilegur síðar á vefsíðu Ferðamálastofu.
Þær Íris Hrund Halldórsdóttir og Anna Guðrún Ragnarsdóttir í rannsóknarhópi RMF deila með þátttakendum helstu niðurstöðum áfangaskýrslu verkefnisins: Aðlögunarhæfni og seigla (e. „resilience“) í ferðaþjónustu: Hvernig á að mæta áföllum? Hvernig unnt er að efla þrautseigju í greininni.
Seigla í ferðaþjónustu
Ferðamálastofa samdi síðastliðið haust við RMF um að rannsaka áhrifaþætti aðlögunarhæfni og seiglu íslenskrar ferðaþjónustu. Reynslan sýnir að ferðaþjónusta getur verið sveiflukenndur atvinnuvegur. Það er ekki aðeins að grunneftirspurnin geti verið breytileg heldur geta náttúruhamfarir eins og eldgos, innlendar efnahagsaðstæður eins og gengi krónunnar, kjarasamningar og verkföll og heimsfaraldrar eins og Covid-19 valdið verulegum sveiflum í bæði umsvifum í greininni og afkomu. Það er því rík ástæða til að hugleiða hvernig ferðaþjónustan getur mætt þessum breytileika og staðið erfið tímabil af sér. Er það megintilgangur með rannsókn RMF en hún stendur út þetta ár.
Þekking grundvöllur stefnumótunar
Verkefnið er hluti af rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2021-2023 en tilgangur hennar er fyrst og síðast að efla þekkingu á ferðaþjónustu sem lykilatvinnugrein og samspili hennar við aðrar megingreinar í íslensku efnahagslífi. Slík þekking og samsvarandi greiningartæki eru mikilvægur grundvöllur stefnumótunar og ákvarðanatöku stjórnvalda, fyrirtækja í greininni og fjármögnunaraðila þeirra.
Til að fara á fundarsvæði viðburðarins, smellið á hnappinn að neðan:
Fyrirlestur Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála