Iceland Express hefur flug til Þýskalands
Á morgun bætist þriðji áfangastaðurinn við leiðakerfi Iceland Express þegar félagið hefur reglubundið áætlanaflug á milli Frankfurt Hahn flugvallar í Þýskalandi og Keflavíkur. Fyrir er félagið sem kunnugt er með London og Kaupmannahöfn í áætlun sinni.
Iceland Express mun fljúga til Frankfurt Hahn þrisvar í viku til 17. september, á þriðjudögum, miðvikudögum og laugardögum. Flugið tekur um 3 klst og 25 mínútur. Flugvöllurinn Frankfurt Hahn er staðsettur í miðju Hunsrück héraði í vestanverðu Þýskalandi, á milli fljótanna Mósel, Rínar, Nahe og Saar. Flugvöllurinn er ekki fjarri því að vera miðja vegu á milli Frankfurt og Luxemburgar en um 130 km er til Frankfurt og 100 km til Luxemborgar. Þá eru um 70 km til Trier, 290 km til Brussel og 470 km til Parísar, svo nokkrir vel þekktir staðir séu nefndir. Við Frankfurt Hahn var áður herstöð Bandaríkjamanna en völlurinn á nú að baki rúmlega áratugs sögu sem alþjóðlegur flugvöllur og er þekktur áfangastaður lággjaldaflugfélaga.