Iceland Travel hlaut starfsmenntaviðurkenningu SAF
Ferðaskrifstofan Iceland Travel hlaut starfsmennta- viðurkenningu SAF 2012 á Degi menntunar í gær. Alls bárust 9 tilnefningar en viðurkenningin nú var veitt í fimmta sinn. Dómnefnd, sem skipuð er þeim Maríu Guðmundsdóttur, upplýsinga- og fræðslufulltrúa SAF, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Ólafi Jónssyni, sviðsstjóra Matvæla- og veitingasviðs Iðunnar fræðsluseturs, tók allar tilnefningar til umfjöllunar. Eftir yfirferð sem byggði á greiningu þess sem lagt var til grundvallar matinu og stefnu SAF, varð ein þeirra fremst meðal jafningja.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að erftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar:
• Starfsfólk skynjar að það sé hluti af innri gildum fyrirtækisins auk þess sem skilningur er á mikilvægi þekkingaruppbyggingar og símenntun
• Stjórnendur Iceland Travel líta á endurmenntun sem lykilatriði í viðhaldi starfsánægju innan fyrirtækisins
• Virkri endurmenntunarstefnu hefur verið fylgt og menntunarstig hefur markvisst verið aukið í fyrirtækinu sl. 6. ár
• Þekkingaröflun og miðlun er heildstæð í fyrirtækinu
• Frammistöðumat, sem sýnir þjálfunar- og menntunarþörf starfsmanna, er framkvæmt
• Áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám samhliða vinnu. Boðið er upp á sveigjanlegan vinnutíma meðan á námi stendur, fjárhagslega styrki og umbun fyrir góðan árangur
• Hugað er að vellíðan og heilsueflingu starfsfólks í samvinnu við fyrirtækið Hrif
• Fyrirtækið leggur mikið upp úr samfélagslegri ábyrgð og hefur m.a. látið útbúa myndband í því skyni að vekja fólk til umhugsunar um náttúru Íslands og hefur með því skapað sér ákeðið forskot meðal alþjóðlegra samtaka í ferðaþjónustu
• Fyrirtækið hefur náð ákveðnu samkeppnisforskoti með beinum hætti gegnum markvissa símenntunarstefnu
Mynd: María Guðmundsdóttir, upplýsinga- og fræðslufulltrúa SAF; Árni Gunnarsson, formaður SAF; Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Ragnheiður Valdimarsdóttir, mannauðsstjóri Iceland Travel.