Icelandair með reglubundið áætlanaflug til San Fransisco
Icelandair tilkynnti nú í dag að félagið myndi hefja reglubundið áætlanaflug til San Fransisco á vesturströnd Bandaríkjanna í maí á næsta ári.
Fagnaðarefni fyrir íslenska ferðaþjónustu
"Við hljótum að fagna mjög þessari ákvörðun Icelandair sem eykur mjög möguleika íslenskrar ferðaþjónustu til útrásar í nýjum heimshluta. Hér er um er að ræða verulega breytingu á því samgöngukerfi sem verið hefur til og frá landinu. Í áratugi hafa beinar flugsamgöngur til landsins verið tengdar fjórum svæðum, þ.e. Norðurlöndunum, Bretlandi, meginlandi Evrópu og austurströnd Norður-Ameríku. Með þessari ákvörðun opnast algerlega nýir möguleikar til útrásar í kynningar- og markaðsstarfi þegar reglubundið áætlanaflug hefst á milli íslands og vesturstrandar Bandaríkjanna," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.
Þá bendir hann á að í áratugi hefur verið unnið mikið markaðsstarf í allri Norður-Ameríku og nú síðustu árin hefur átakið Iceland Naturally m.a. verið þar í gangi til að kynna íslenskar vörur og þjónustu. "Það er von mín að það mikla starf sem nú þegar hefur verið unnið til að kynna Ísland í Norður-Ameríku og sá aukni kraftur sem nú verður settur í kynningarstarf á vesturströnd Bandaríkjanna muni skapa þau umsvif sem tryggi þetta áætlunarflug vel í sessi og leggi grunn að frekari útrás og samgöngum við þennan hluta Bandaríkjanna," segir Magnús að lokum.