Ísfirðingar ræða leiðir til að lengja ferðamannatímabilið
Aðilar í ferðaþjónustu í Ísafjarðarbæ ætla að hittast á hádegisfundi í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað í dag og ræða um samræmdar aðgerðir til að kynna sveitarfélagið sem funda- og ráðstefnubæ. Þetta kemur fram í frétt í Bæjarins besta í dag.
Til fundarins boðar ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar, Rúnar Óli Karlsson. Bæjarins besta hefur eftir Rúnari Óla að á fundinum verði rætt um leiðir til að lengja ferðamannatímabilið og fá fólk til bæjarins á jaðartímum, í maí og í september og október. Ein leiðin til þess sé að kynna bæinn sem heppilegan stað fyrir ýmis konar samkomur og mannamót, fundi og ráðstefnur. Jafnframt er haft eftir Rúnari Óla að forsvarsmenn þeirra fyrirtækja og félagasamtaka sem hafa komið til Ísafjarðar í þessum erindagjörðum séu mjög ánægðir. Uppi séu ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt er að kynna bæinn betur og verða þær ræddar á fundinum. Nú hafi fengist fjármagn til þess konar kynningarstarfs, 200.000 krónur frá bæjarfélaginu og 500.000 krónur frá Ferðamálaráði. Sá styrkur sé eyrnamerktur auglýsingum á jaðartímum ferðamannatímabilsins.
Myndatexti: Frá Ísafirði. Mynd af vef Bæjarins besta.