Fara í efni

Ísland á JATA 2009

jata09_1
jata09_1

Ísland naut verulegrar athygli á JATA-ferðakaupstefnunni í Japan. Sex íslenskir aðilar tóku þátt á sameiginlegum Íslandsbás en Ferðamálastofa og Útflutningsráð styrktu þátttökuna fjárhagslega og Ferðamálastofa ásamt sendiráði Íslands í Japan undirbjó og sá um framkvæmdina.

Þema íslenska sýningarbássins var norðurljósin og heilsulindir. Sett var upp eftirlíking af heitri laug við Mývatn og vakti laugin mikla athygli sýningargesta. Daginn áður en sýningin hófst þann 18. september hélt Íslenska verslunarráðið í Tókýó kynningu á íslenskri ferðaþjónustu, þróun hennar og nýsköpun. Hún var haldin í íslenska sendiráðinu í Tókýó. Þangað komu um 45 gestir úr japönsku atvinnulífi og voru flestir frá japönskum ferðaskrifstofum. Íslensku aðilarnir voru Icelandair, Iceland Travel, Iceland Excursions, Viking K.K., Discovery Tours og Norðausturland. Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, sagði ánægjulegt hversu vel tókst til. Sagist hann vilja koma á framfæri þakklæti til allra samstarfsaðila vegna þessa verkefnis, sem lofaði góðu um áframhaldandi samvinnu við að fjölga ferðamönnum frá Japan. Meðfylgjandi myndir tók Akiko Hasegawa sem starfar í sendiráði Íslands í Tókíó.