Fara í efni

Ísland fellur um tíu sæti frá 2019 í þróunarvísitölu World Economic Forum

Alþjóðlegu samtökin World Economic Forum (WEF), sem margir tengja við þekktar ráðstefnur samtakanna í bænum Davos í Sviss, hefur birt uppfærslu á þróunarvísitölu sinni fyrir ferðalög og ferðaþjónustu (e. Travel and Tourism Development Index, TTDI).

Úr efsta sæti Norðurlanda í það neðsta

Það sem vekur líklega mestan áhuga landans í þessari nýju útgáfu er sú staðreynd að Ísland lækkar frá síðasta ári fyrir Covid, 2019, um heil tíu sæti á röðunarlista landanna sem eru í vístölunni. Þar með færist Ísland frá því að vera efst Norðurlandanna á þennan mælikvarða í botnsætið, þó með þeim fyrirvara að Noregur er af einhverjum ástæðum ekki í hópnum. Einnig er rétt að benda á að þetta mikla fall í sætum byggist á aðeins 3,4% lækkun einkunnar. 

Efsta sætið í þessari þróunarvísitölu WEF verma Bandaríkin.
Þá kemur Spánn og Japan er í þriðja sæti.

Hvað liggur til grundvallar?

Einkunn hvers lands í vísitölunni er meðaltal fimm þátta sem metnir eru: Viðskiptaumhverfi atvinnugreinarinnar, öryggismál, heilsa og þrifnaður, vinnumarkaður og nýting upplýsingatækni. Ísland skorar hæst í öryggismálum og þar á eftir í notum upplýsingatækni. Lægst skorar landið í viðskiptaumhverfi greinarinnar, lægra en Finnland, Svíþjóð og Danmörk. Ísland skorar hæst landanna í öryggismálum en lægst í heilsu og þrifnaði!

Er ástæða til að hafa áhyggjur?

Einkunnir einstakra landa eru ekki útskýrðar í skýrslu WEF og rétt er að halda því til haga að munurinn í einkunnum landa sem ofangreind röðun byggir á er yfirleitt mjög lítill. Því er líklega ekki ástæða til að fara á límingunum yfir þessu þótt áhugavert sé að rýna í.

Greinin í heild:
https://www3.weforum.org/docs/WEF_Travel_and_Tourism_Development_Index_2024.pdf

Nánari upplýsingar veitir: Jóhann Viðar Ívarsson  - johann@ferdamalastofa.is