Fara í efni

Ísland í 25. sæti hvað varðar samkeppnisstöðu ferðaþjónustu

Samkeppnishæfni í ferðaþjónustu

Ísland er í 25. sæti hvað varðar samkeppnisstöðu á sviði ferðaþjónustu samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) sem var birt fyrr í mánuðinum. Samkeppnisstaða 136 ríkja var skoðuð á þessu sviði, en Ísland fellur niður um sjö sæti frá því ráðið gaf út sambærilega skýrslu árið 2015. Spánn er í fyrsta sæti í annað sinn, Frakkland í öðru og Þýskaland í því þriðja.

Evrópa leiðir listann

Evrópa er leiðandi á listanum, með sex ríki í tíu efstu sætunum. Er góðu gengi helst að þakka miklum menningarauði, framúrskarandi innviðum í ferðaþjónustu, opnum samfélögum og að ferðamenn upplifa sig örugga á svæðinu. Af Norðurlöndum er Ísland í þriðja sæti á eftir Noregi og Svíþjóð.

Styrkleikar og veikleikar Íslands

Ísland kemur vel út úr samanburðinum varðandi innviði ferðaþjónustunnar, viðskiptaumhverfi, mannauð, upplýsingatækni, öryggi, heilbrigðismál og sjálfbærni í umhverfismálum. Ísland er í fyrsta sæti þegar litið er til mannauðs og vinnumarkaðsmála, og í þriðja sæti hvað öryggi varðar og þegar litið er til þess hvar ferðaþjónusta er á forgangslista einstakra ríkja. Hins vegar dregur hátt verðlag úr samkeppnishæfni hér á landi, en þar er Ísland í fimmta neðsta sæti.

 

Megin niðurstöður

Varðandi samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar um heim allan eru meginniðurstöður skýrslunnar fjórar. Í fyrsta lagi fer ferðamönnum til og frá þróunarlöndum fjölgandi. Í öðru lagi heldur áfram sú þróun áfram að ferðamönnum fer almennt fjölgandi og þeim er gert auðveldara að ferðast, til dæmis með slakari reglur um ferðaheimildir. Í þriðja lagi eykst áhersla á upplýsingatækni og að ferðamenn geti verið vel tengdir við umheiminn með bættri upplýsingatækni. Síðast en ekki síst er vakin athygli á því að þrátt fyrir vitundarvakningu um umhverfismál stendur ferðaþjónustan frammi fyrir vandamálum tengdum sjálfbærni í umhverfismálum, þar sem auka þarf náttúruvernd víða um heim.

Skýrslan í heild: