Ísland sækjum það heim!
Ísland sækjum það heim! er yfirskrift kynningarátaks sem formlega var ýtt úr vör sl. föstudag. Markmiðið er að efla ferðalög landsmanna innanlands og hvetja þá til þess að nýta sér í auknum mæli þá fjölbreyttu möguleika sem íslensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða. Kynningarverkefnið Ísland sækjum það heim er samstarfsverkefni samgönguráðuneytisins og skrifstofu Ferðamálaráðs. Verkefnið er hluti af kynningarátaki sem efnt hefur verið til á helstu markaðssvæðum Íslands í Evrópu og í Bandaríkjunum. Er vonast til þess að viðbrögð meðal almennings á Íslandi verði ekki síðri en á meðal ferðalanga erlendis.
Brugðist við hryðjuverkunum sl. haust
Ákvörðun um átakið var tekin af stjórnvöldum strax í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum síðastliðið haust. Við afgreiðslu fjárlaga var samgönguráðuneytinu úthlutað 150 milljónum króna sem varið yrði til þess að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni.
Ákveðið var að verja stærstum hluta fjárins á erlendum vettvangi strax í upphafi ársins en jafnframt að verja 45 milljónum til sérstakra kynningarverkefna innanlands. Þar af verður tæplega 30 milljónum varið til auglýsingaherferðar undir vígorðinu Ísland sækjum það heim. Gengið hefur verið frá samkomulagi um samstarf við Ríkisútvarpið í því átaki og samningar um samstarfsaðild fyrirtækja standa yfir. Ferðamálasamtök landshlutanna fá hvert um sig ákveðna upphæð til að kynna sérstaklega hvern landshluta eða sinna vöruþróun heima í héraði. Þá verður verkefnum á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu gefinn sérstakur gaumur. Það voru þeir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri; Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Einar Kr. Guðfinsson, formaður Ferðamálaráðs, sem kynntu átakið sl. föstudag við opnun Ferðatogs 2002 í Smáralind.
Opna augu landsmanna til að upplifa land og þjóð
Þjónusta við ferðamenn hefur þróast hratt hér á landi á undanförnum árum. Möguleikum í gistingu, afþreyingu, veitingum og verslun hefur fjölgað mjög og þeir vaxið að gæðum og fjölbreytni. Á sama tíma hefur ferðamynstur landsmanna á ferðum innanlands breyst lítið og viðskipti þeirra við fjölbreytta ferðaþjónustu innanlands hafa ekki þróast í takt við aukið framboð. Það er von þeirra sem standa að verkefninu að með því opnist augu landsmanna frekar fyrir fjölbreyttum tækifærum til þess að upplifa land og þjóð með augum ferðamannsins og að þeir gefi sér aukinn tíma til þess að upplifa og njóta umhverfis, sögu og menningar á Íslandi.
Í herferðinni verður lögð áhersla á upplifun þeirra sem ferðast um Ísland og þeir hvattir til að snerta, smakka, anda að sér, hlusta, skoða og kynnast. Auglýst verður jöfnum höndum í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og víðar auk þess sem umhverfisgrafík og fleiri birtingarform verða notuð.