Ísland vinnur alþjóðleg markaðsverðlaun
Ráðstefnuskrifstofa Íslands (RSÍ) og Inspired By Iceland verkefnið báru sigur úr bítum í úrslitum markaðsverðlauna ICCA-samtakanna, stærstu alþjóðlegu samtaka aðila á ráðstefnu og hvataferðamarkaðinum. Verðlaunin voru afhent í dag í Hyderabad á Indlandi.
Verðlaunin tengjast Inspired by Iceland verkefninu og hvernig aðildarfélagar RSÍ brugðust við þeim vanda sem eldgosið í Eyjafjallajökli skapaði. Þetta er því í raun viðurkenning á góðu starfi aðildarfélaga RSÍ og fagmennsku þeirra sem tryggði að höggið var minna en upphaflega stefndi í, sem og hvernig Inspired by Iceland verkefnið studdi við allar gerðir ferðamennsku til landsins.
Stærstu alþjóðlegu samtök í faginu
ICCA eru sem fyrr segir stærstu alþjóðleg samtök aðila á ráðstefnu og hvataferðamarkaðinum. Meðlimir eru um 900 talsins í 86 löndum um allan heim. Verðlaunin sem um ræðir nefnast „Best Marketing Award“ og eru veitt til aðila sem þykir hafa staðið sig framúrskarandi vel í að koma vöru sinni eða þjónustu á framfæri. Ljóst er að sigur Íslands í þessari keppni kemur til með að vekja rækilega athygli á landinu sem valkosti á ráðstefnu og hvataferðamarkaðinum. Má segja að hann komi á góðum tíma nú þegar styttist í að Harpa verði opnuð.
Hvatning til að halda áfram
"Verðlaunin eru fyrst og fremst viðurkenning á því markaðsstarfi sem var unnið í kjölfar gossins. Þau munu einnig hjálpa okkur sem störfum á ráðstefnu- og hvataferðamarkaðinum því að þau vekja mikla athygli á landi og þjóð og sýna að hér búa og starfa fagfólk sem kann að bregðast hratt og örugglega við. Í því liggur styrkur okkar sem áfangastaðar fyrir þessa gerð ferðamennsku. Verðlaunin eru líka hvatning til þess að halda áfram og sýnir einnig fram á mikilvægi samvinnu allra þeirra sem koma að markaðssetningu lands og þjóðar," segir Anna Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Ráðstefnuskrofstofu Íslands, sem veitti verðlaununum viðtöku. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri.
Þrír aðilar komust í úrslit en keppinautarnir voru Excel-sýningarhöllin í London og Sandon ráðstefnumiðstöðin í Suður-Afríku.
Um ráðstefnuskrifstofu Íslands
Hlutverk Ráðstefnuskrifstofu Íslands er að markaðssetja Ísland á erlendum vettvangi sem áfangastað fyrir fundi, ráðstefnur og hvatningaferðir. Aðildarfélagar eru Ferðamálastofa, Icelandair, Reykjavíkurborg og leiðandi aðilar á sviði funda og ráðstefnuhalds, svo sem hótel, ferðaskrifstofur og veitingahús.
Um Inspired by Iceland
Að markaðsátakinu Inspired by Iceland standa iðnaðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Icelandair, Iceland Express, Íslandsstofa og yfir 80 íslensk ferðaþjónstufyrirtæki.