Ísland vinnur ferðaverðlaun The Guardian / Observer
Í gær voru árleg ferðaverðlaun sem bresku fjölmiðlarnir The Guardian, The Observer og Gurdian Unlimited standa fyrir afhent í Marokkó. Veitt eru verðlaun í nokkrum flokkum og var Ísland í fyrsta sæti í flokkum "Uppáhalds Evrópulandið".
Verðlaunin byggja á niðurstöðum könnunar sem fjölmiðlarnir gera árlega á meðal lesenda sinna. Verðlaunin í ár voru þau 17. í röðinni og hefur þátttaka aldrei verið betri en 24.000 svör bárust. Könnunin gengur þannig fyrir sig að lesendur eru beðnir að meta þá þjónustu sem þeir fá í ferðalögum sínum með því að gefa henni einkunn. Könnunin fór fram í janúar í ár og byggir þannig á áliti ferðamanna sem hér voru á síðasta ári.
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, er staddur í Marokkó þar sem hann veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Ferðamálaráðs Íslands og segir hann þetta verulega viðurkenningu fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu. "Það góða við þessi verðlaun er að þau byggja alfarið á áliti lesenda. Það eru ferðamennirnir sjálfir sem eru að kveða upp dóm sinn byggðan á gæðum þeirrar þjónustu sem þeir fengu. Þetta er enn ein staðfestingin á því að sú mikla samstaða sem náðst hefur á meðal ferðaþjónustufyrirtækja og opinberra aðila í markaðssetningu á Bretlandsmarkaði hefur tekist vel," segir Ársæll.