Hvatningarverðlaun Íslandsbanka afhent
Íslandsbanki veitti fyrir helgina þremur ferðaþjónustufyrirtækjum Hvatningarverðlaun Íslandsbanka.
Verðlaunin voru afhent samhliða ferðakaupstefnunni Iceland Trawel Workshop (ITW) sem ráðgjafa- og þjónustufyrirtækið IcelandReps hélt í samstarfi við Íslandsbanka, Keflavíkurflugvöll, Radisson Blu Hótel Sögu og Opna háskólann.
Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum í ferðaþjónustu og er þeim ætlað að vera hvatning til að efla og stuðla að nýsköpun og uppbyggingu hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Það er Íslandsbanka mikilvægt að styðja við þennan mikilvæga og ört vaxandi iðnað.
Þrír aðilar með víðtæka reynslu og þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu skipuðu dómnefnd sem valdi þau fyrirtæki sem hlutu verðlaunin. Formaður dómnefndar var Kristín Hrönn Guðmundsdóttir,viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka, og með henni voru Þóra Guðmundsdóttir, eigandi og stofnandi IcelandReps, og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.
Hvatning til uppbyggingar og nýsköpunar
Töluvert af umsóknum bárust og greinilegt að mikil gróska er í íslenskri ferðaþjónustu. Valin voru þrjú fyrirtæki sem fengu að launum verðlaunagrip frá IcelandReps og peningaverðlaun frá Íslandsbanka sem mun nýtast þeim í áframhaldandi uppbyggingu og nýsköpun.
Fyrirtækið sem hafnaði í fyrsta sæti heitir ARCANUM. Það sérhæfir sig í ferðum upp á Mýrdalsjökul og inn á hálendið á vélsleðum og jeppum. Fyrirtækið bætti nýlega við jöklagöngu og ísklifri en þær ferðir fara fram á Sólheimajökli. Heimasíða fyrirtækis er www.arcanum.is.
Í öðru sæti var PINK ICELAND sem eru ferðaskipuleggjendur sem sérhæfa sig í að þjónusta samkynhneigða ferðalanga sem vilja koma til Íslands. Fyrirtækið hefur náð að nýta umburðarlyndi Íslands gagnvart samkynhneigðum einstaklingum og sterka réttarstöðu þeirra til frekari uppbyggingar í íslenskri ferðaþjónustu. Heimasíða fyrirtækisins er www.pinkiceland.is.
Í þriðja sæti var Selasigling á Hvammstanga sem býður upp á sela- og náttúruskoðun, sjóstangveiði og miðnætursiglingu í Húnaþingi Vestra. Ferðaþjónusta þar er í mikill sókn. Selurinn er þeirra séreinkenni og hefur svo verið um áraraðir. Nú stendur yfir kynningarátakið Á selaslóðum, sem er samstarfsverkefni fyrirtækja á svæðinu og er Selaskoðun hluti af því verkefni. Heimasíða fyrirtækisins er www.sealwatching.is.