Íslandshátíð í Liverpool
Seinna á árinu, nánar tiltekið dagana 29. nóvember til 2. desember, verður Ísland í sviðsljósinu í Liverpool í Englandi. Þá verður haldin í borginni hátíð þar sem íslenskir listamenn og íslenskt lista- og menningarlíf verður í öndvegi. Viðburðurinn er hluti af 800 ára afmælishátíð Liverpoolborgar, sem stendur í raun allt árið.
Meðal dagskráratriða má nefna tónlistaratriði af ýmsum toga, sýningu á íslenskri hönnun, ljósmyndasýningar og kynningu á íslenskum kvikmyndum. Þá munu íslenskir meistarakokkar sækja borgina heim og haldin verður smásagnasamkeppni í samvinnu við grunnskóla á svæðinu þar sem í verðlaun er ferð til Íslands. Yfirdómari í keppninni verður Andri Snær Magnason rithöfundur en verðlaunabók hans, barnabókin Sagan af bláa hnettinum, verður gefin út á ensku í tengslum við hátíðina.
Frumkvöðull að Íslandshátíðinni er Ingi Þór Jónsson, framkvæmdamaður í Liverpool. Ýmsir íslenskir aðilar leggja hönd á plóg og þeirra á meðal Ferðamálastofa. ?Á hátíðinni gefst gott tækifæri til að kynna Ísland á svæðinu en flogið er frá Manchester til Keflavíkur tvisvar sinnum í viku árið um kring,? segir Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálastofu á Bretlandsmarkaði. Heimasíða hátíðarinnar