Íslandsstofa kynnir Iceland Academy
Ný markaðsherferð Íslandsstofu til að kynna Ísland fyrir erlendum ferðamönnum nefnist Iceland Academy. Þetta kom fram á fundi sem Íslandsstofa boðaði til í morgun um samstarf og markaðssetningu erlendis á árinu 2016.
Herferðinni, sem fer formlega af stað 25. febrúar, er ætlað að auka vitund og áhuga á Íslandi sem áfangastað ásamt því að leggja áherslu á ábyrga ferðahegðun erlendra gesta, auka öryggi þeirra og ánægju og stuðla að því að þeir fái sem mest út úr Íslandsferðinni. Herferðin kynnir fyrir ferðamönnum ýmislegt forvitnilegt í íslenskri menningu, siðum og náttúru með örnámskeiðum á vef og samfélagsmiðlum.
Átta íslenskir leiðbeinendur
Í fararbroddi herferðarinnar eru átta íslenskir leiðbeinendur en leiðtogi þeirra verður leiðsögumaðurinn Kristín Bang sem mun stýra fræðslu um ábyrga ferðamennsku. Aðrir leiðbeinendur eru Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg sem leiðbeinir um öryggismál, Ylfa Helgadóttir meðlimur íslenska kokkalandsliðsins sem fræðir um íslenska matargerð, Guðmundur Karl Jónsson umsjónarmaður skíðasvæðisins á Akureyri kynnir íslenska vetrarafþreyingu, Kamilla Ingibergsdóttir fyrrum kynningarstjóri Iceland Airwaves og núverandi starfsmaður Of Monsters and Men segir frá íslenskum hátíðum, Baldur Kristjánsson ljósmyndari sýnir erlendum gestum hvernig best er að fanga norðurljósin á mynd, Guðrún Bjarnadóttir fræðir ferðamenn um íslenskar heilsulindir og loks mun Sigríður Margrét Guðmundsdóttir eigandi Landnámsseturs fræða ferðamenn um íslenska sögu.
Útskriftarferð til Íslands í verðlaun
Fyrstu fimm námskeið Iceland Academy verða sýnileg á vef Inspired By Iceland og hægt er að fylgjast með í gegnum Facebook, Twitter og Instagram. Tilvonandi ferðamönnum sem horfa á námskeiðin gefst kostur á að þreyta próf og kanna þekkingu sína á efninu. Þeir sem ljúka öllum námskeiðunum með prófi gefst svo kostur á að vinna útskriftarferð til Íslands.
Herferðin endurspeglar umræðuna
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, segir að aðaláherslan í markaðssetningu Íslands undanfarið miði að því að vekja áhuga á Íslandi utan háannar, fá fólk til þess að ferðast víðar um landið, eyða meiru og dvelja hér lengur.
Tilgangur Iceland Academy er að aðstoða hinn upplýsta ferðamann við að upplifa besta matinn, fallegustu náttúruna, áhugaverðustu menninguna og fleira á öruggan og ábyrgan hátt.
Markaðsstarfið hefur gengið vel fram að þessu og við eigum mjög gott samtal við ferðaþjónustuna þegar kemur að áherslum í starfinu. Við höfum unnið að herferðinni í samstarfi við þau fyrir-tæki sem taka þátt í Ísland allt árið og markaðsstofum landshlutanna og teljum að hún endurspegli vel þá umræðu sem á sér stað innan ferðaþjónustunnar, segir Inga Hlín.
Huga að jákvæðari ferðahegðun
Hún segir að skýr vilji sé hjá samstarfsaðilum um að kominn væri tími til að huga að jákvæðari ferðahegðun.
"Stærstur hluti ferðamanna vill upplifa náttúruna og við vitum öll að íslenska náttúru þarf að um-gangast af virðingu og vandfærni. Við teljum að ferðamaðurinn eigi eftir að fá meira út úr ferð sinni og fara héðan ánægðari ef hann er betur upplýstur um aðstæður fyrirfram. Iceland Academy er tækifæri til að kynna og vekja áhuga ferðamanna á einstökum eiginleikum Íslands og hvernig best megi njóta þeirra með öruggum og ábyrgum hætti. Við teljum að þessi nálgun eigi eftir ná vel til okkar markhóps erlendis sem eru svokallaðir "upplýstir" ferðamenn," segir hún.
Hægt er að skrá sig í Iceland Academy með því að heimsækja Inspiredbyiceland.com eftir 25. febrúar.