Íslendingar tíðari gestir á hótelum höfuðborgarsvæðisins
Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í ágústmánuði fækkaði milli áranna 2001 og 2002 samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Í ágúst síðastliðnum töldust gistinætur vera 63.354 en árið 2001 voru þær 64.981, en það er um 2,5 % samdráttur. Hagstofan vekur hins vegar athygli á að fjöldi íslenskra hótelgesta á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldaðist milli ára og fór úr 1919 í 3852 en útlendingum fækkaði um tæp 6% á sama tíma.
Gistinóttum fækkaði á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum um rúm 13% í þessum landshluta í ágúst. Þar voru gistinætur 9.082 í ágúst síðastliðnum en árið á undan voru þær 10.470. Gististöðum í þessum landshluta fækkaði um einn og rúmum fækkaði þar með um 49.
Á Norðurlandi vestra og eystra fækkaði um tæp 3% milli ára. Þá voru gistinæturnar 14.946 árið 2001 en töldust 14.504 í ágúst síðastliðnum. Útlendingum fjölgaði þá um 5% milli ára en á sama tíma fækkaði gistinóttum vegna Íslendinga úr 2.692 í 1.638.
Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi eins og gerst hefur í öllum mánuðum á þessu ári. Þær voru 11.176 í ágúst 2001 en töldust 16.367 í ágúst sl, en það er aukning um rúm 46%. Fjölgunin á bæði við um íslenska og erlenda hótelgesti. Á Suðurlandi fjölgaði gististöðum um 3 á milli ára og rúmum þar með um 286.
Hagstofan segir að skil á gistiskýrslum ágústmánaðar hafi ekki verið nægjanleg fyrir Austurland og því sé ekki mögulegt að birta tölur fyrir þann landshluta að svo stöddu.