Íslensk ferðaþjónusta kemur vel út úr evrópskum samanburði
Evrópska ferðamálaráðið ETC gefur ársfjórðungslega út skýrslu um þróun og horfur í ferðamálum álfunnar. Skýrslan fyrir þriðja ársfjórðung var að koma út og ljóst að Íslendingar geta vel við unað í samanburði við önnur aðildarlönd ETC.
Sem kunnugt er hafa mörg Evrópulönd verið að takast á við erfiðar efnahagslegar aðstæður. Í því umhverfi hefur ferðaþjónstan í álfunni sýnt styrk sinn og flest Evrópulönd geta státað af fjölgun ferðamanna það sem af er ári, samanborðið við fyrra ár, bæði frá fjærmörkuðum og öðrum Evrópulöndum.
Efnahagsástandið hefur áhrif
Þó hefur hægt á vexti greinarinnar eftir því sem liðið hefur á árið, sem merkja má bæði af tölum frá flugfélögum og nýtingu gistirýmis. Þetta telur ETC að megi a.m.k. að hluta til skýra í ljósi efnahagsástandsins, þ.e. fólk leitar í auknu mæli í ódýrari valkosti og styttri ferðir, bæði innan eigin lands og innan álfunnar.
Áhyggjur af eftirspurn og verðlagingu
Þá virðist eftirspurn eftir hótelgistingu vera minni en aukning í ferðalögum gefur tilefni til að ætla, sem geti bent til þess að fólk sæki í auknu mæli í ódýrari form gistingar. Þá benda tölur til að erfitt geti reynst að halda uppi eða hækka verð á ferðaþjónustu, sem komið geti niður á afrakstri greinarinnar. Hvað varðar framtíðarhorfur þá telur ETC að þær verði áfram í nokkurri óvissu, í ljósi ótryggs efnahagsástands álfunnar.
Ísland víðast við toppinn
Sem fyrr segir getur Ísland vel við unað í samanburði við önnur Evrópulönd. Gildir það hvort sem horft er til fjölgunar ferðamanna eða talna um nýtingu hótelgistingar.
Skýrsluna í heild má nálgast hér að neðan
European Tourism 2012 - Trends and Prospects (PDF - 2 MB)