Íslenski ferðaklasinn formlega stofnaður
Stofnfundur Íslenska ferðaklasans var haldinn fimmtudaginn 12. mars sl. á Hotel Reykjavik Natura. Íslenski ferðaklasinn er samstarfsvettvangur aðila sem starfa á sviði ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum.
Hlutverk félagsins er að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónstu og til að ná þeim árangri mun félagið einbeita sér að eftirfarandi þáttum:
- Efla og styrkja samvinnu og samstarf
- Stórefla hverskonar nýsköpun á sviði ferðaþjónustu
- Stuðla að aukinni fagmennsku og gæðum
- Efla innviði greinarinnar
Íslenski ferðaklasinn hyggst ná markmiðum sínum með skilgreindum verkefnamiðuðu samstarfi.
Í fréttatilkynningu segir að stofnun Íslenska ferðaklasans marki tímamót og nýbreytni í íslenskri ferðaþjónustu. "Klasasamstarfið er hrein viðbót við þá starfsemi sem unnin er á sviði ferðamála, s.s. eins og hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og Íslandsstofu, svo dæmi séu nefnd, og kemur ekki í stað þeirra. Þvert á móti mun klasinn stuðla að auknu samstarfi við þessa aðila sem og aðra um land allt. Hér er um að ræða þverfaglegt samstarf sem styrkir og eflir greinina með markvissum hætti."
Stofnaðilar Íslenska ferðaklasans eru 32 en á fundinum var ákveðið að framlengja möguleikann á að gerast stofnaðili til 12.maí nk. Allir þeir sem hafa hagsmuni að uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu hvattir til að taka þátt í öflug og áhrifamiklu starfi. Formaður Íslenska ferðaklasans er Sævar Skaptason frá Ferðaþjónustu bænda.
Nánar á: www.icelandtourism.is