Íslenskir ferðaþjónustuaðilar geta sótt um umhverfisverðlaun WWF
World Wide Fund for Nature (WWF) er nú að leita eftir tilnefningum til "Arctic Award" umhverfisverðlauna samtakanna en íslenskir ferðaþjónustuaðilar eru meðal þeirra sem eru gjaldgengir í valinu. Til nokkurs er að vinna því verðlaunaféð nemur 10.000 svissneskum frönkum, eða sem samsvarar tæpum 600 þúsundum íslenskra króna.
Verðlaunin eru ætluð aðila í ferðaþjónustu, einstaklingi, fyrirtæki eða samtökum, sem sýnt hafa í verki að verndun náttúrunnar og dýralífs sé lykilþáttur í starfseminni. Gjaldgengir í valinu eru ferðaþjónustuaðilar í þeim átta löndum sem liggja að Norðurheimskautinu en auk Íslands eru það Grænland, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Rússland, Kanada og Bandaríkin (Alaska). Til þess að koma til greina í valinu þarf viðkomandi að hafa sýnt fram á að ferðaþjónusta og náttúruvernd geti farið saman í því viðkvæma umhverfi sem hinar norðlægu slóðir eru og að öll starfsemi hans taki mið af þeirri staðreynd.
Tilnefningar geta verið með tvennum hætti. Bæði er hægt að senda inn tilnefningu og benda á aðila sem þeim hinum sama finnst verðugur verðlaunanna en einnig geta einstaklingar, fyrirtæki eða samtök sótt sjálf um að vera með í valinu. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar næstkomandi.