Jón Ásbergsson stýrir Íslandsstofu
Stjórn Íslandsstofu ákvað á fundi sínum í gær að ráða Jón Ásbergsson sem framkvæmdastjóra Íslandsstofu. Jón Ásbergsson er viðskiptafræðingur að mennt og hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri Loðskinns á Sauðárkróki, Hagkaupa og síðast Útflutningsráðs Íslands.
Íslandsstofa var stofnuð með nýjum lögum í lok apríl á þessu ári og er markmið þeirra að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.
Undir merkjumÍslandsstofu er sameinuð starfsemi sem áður var á hendi Útflutningsráðs Íslands og markaðssviðs Ferðamálastofu, auk þess sem náið samstarf verður við utanríkisþjónustuna og kynningarmiðstöðvar lista- og menningar í landinu.
Stofnfundur var haldinn 29. júní sl. og tók Íslandsstofa formlega til starfa 1. júlí. Stjórn Íslandsstofu auglýsti starf framkvæmdastjóra laust síðla í júní og rann umsóknarfrestur út 11. júlí sl. Þrjátíu umsækjendur voru um starfið.
?Stjórnin fjallaði um ráðningarmálið á sex formlegum fundum, þar sem allar umsóknir voru til skoðunar. Ákveðið var að kalla til viðtals þá umsækjendur, sem stjórnarmenn voru sammála um að helst kæmu til greina í starfið. Næsta verkefni stjórnar verður að standa fyrir nýsköpunar- og stefnumótunarvinnu á haustmánuðum í þágu nýrrar Íslandsstofu," samkvæmt tilkynningu.