Kannanir Ferðamálastofu aðgengilegar á gagnvirkum vef
Stórt skref var stigið í dag í aðgengi að gögnum Ferðamálastofu með opnun á vefsvæði þar sem nálgast má á einum stað niðurstöður úr könnunum Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna. Kannanirnar ná allt aftur til ársins 1996 og taka bæði til sumar- og vetrargesta.
Myndræn birting og niðurhal
Á vefnum er hægt að skoða og bera niðurstöður saman á ýmsa vegu með myndrænum hætti, bæði einstakar kannanir og milli kannana. Gögnin eru einnig hugsuð til frekari úrvinnslu fyrir notendur vefsins þar sem hægt er að hlaða gögnunum niður.
Uppbygging vefsins
Vefsvæðið er tvískipt:
- Undir flipanum Spurningar er hægt að skoða svör við hverri spurningu, fyrir einstaka könnun eða margar kannanir saman. Hægt er að skoða niðurstöður sérstaklega fyrir hvert markaðssvæði og einnig eftir ferðamáta til landsins (flug/ferja) eða árstíð.
- Undir flipanum Bakgrunnur eru niðurstöður hverrar spurningar eftir bakgrunnsbreytum könnunarinnar, þ.e.:
- Kyn
- Aldur
- Markaðssvæði
- Tekjur
- Starfsheiti
- Ferðamáti
- Þjóðerni
- Búsetuland
Samanburð er hægt að fá eftir markaðssvæðum, ferðamáta til landsins og árstíð.
Byggir á ókeypis hugbúnaði
Sem vænta má hefur spurningalistinn tekið ýmsum breytingum í áranna rás og því ekki hægt að bera allar spurningar saman á milli allra kannana. Mikil vinna liggur í uppsetningu og samræmingu gagnagrunnsins en um það sá Rannsóknafyrirtækið Maskína, sem einnig hefur framkvæmt síðustu kannanir Ferðamálastofu. Vefurinn byggir á ókeypis hugbúnaði sem nefnist Tableau og Maskína sá um að aðlaga fyrir þetta verkefni. Vefurinn er bæði á íslensku og ensku.