Kertasníkir á jólahátíð í Rovaniemi
Í dag lagði jólasveinninn Kertasníkir af stað frá Dimmuborgum í Mývatnssveit áleiðis til Rovaniemi í Finnlandi. Þar hefst næstkomandi föstudag mikil jólahátíð og verða íslensku jólasveinarnir í hávegum hafðir.
Styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins
Ferð Kertasníkis til Rovaniemi er liður í svonefndu Snow Magic verkefni. Um er að ræða umfangsmikið þróunarverkefni sem að koma þátttakendur frá þremur löndum, þ.e. Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi. Verkefnishugmyndin var mótuð í umsókn um fjárhagsstuðning í Northern Periphery Programme (NPP) - Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. NPP er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum meðal svæða á norðlægum slóðum í Evrópu. Í íslenska hluta verkefnisins er sjónum beint að Mývatnssveit og fer Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga með verkefnisstjórn í samvinnu við heimaaðila. Markmið íslenska hlutans er að efla atvinnulíf í Mývatnssveit, sérstaklega yfir vetrartímann, með áherslu á ferðaþjónustu og menningu.
Íslensku jólasveinarnir í öndvegi
Verkefni Snow Magic sem tengjast Mývatnssveit eru margvísleg og er jólasveinaverkefnið eitt þeirra. Í tengslum við það verkefni hafa verið hönnuð og gefin út póstkort með íslensku jólasveinunum, bæði með enskum og íslenskum texta. Nýir jólasveinabúningar hafa verið hannaðir og saumaðir og mun Kertasníkir klæðast búningnum á leið sinni til Rovaniemi og heim aftur. Eftir heimkomuna verður Kertasníkir síðan ásamt bræðrum sínum á ferð um Mývatnssveit og nágrenni allan desember og kemur víða við.
Af öðrum verkefnum sem tengjast íslenska hluta Snow Magic verkefnisins má nefna að unnið hefur verið að sögusöfnun og minningum hjá eldri Mývetningum. Þá starfaði vinnuhópur að hugmyndavinnu og hönnun með snjó og ís og framleiddi þá hin ýmsu listaverk. Sögu og teiknisamkeppni barna og unglinga þar sem efniviðurinn var "snjór og ís" var í nóvembermánuði og fleira mætti telja. Nánar má fræðast um verkefnið á vef Snow Magic.
Á myndinni er Kertasníkir ásamt föruneyti sínu á Akureyrarflugvelli fyrr í dag.