Kort Landmælinga fáanleg á geisladiski
Landmælingar Íslands hafa gefið út nýjan kortadisk með yfirlitskortum af landinu, sveitarfélagakortum, gróðurmynd og helstu sölukortum LMÍ á liðnum árum, ferðakorti 1:500 000 og aðalkortum 1:250 000. Kortadiskurinn hefur fengið afar góðar viðtökur og er sem stendur uppseldur hjá Landmælingum Íslands en næsta útgáfa er væntanleg.
Á diskinum er skoðunarhugbúnaðurinn, VisIT 4.22, frá dönsku kortastofnuninni sem býður upp á fjölbreytta valkosti við skoðun kortanna. Aðalkortin eru níu talsins í prentaðri útgáfu en hefur á diskinum verið skeytt saman í eitt kort. Á diskinum er nafnaskrá frá ferðakortinu með yfir 3000 staðsettum örnefnum þannig að auðvelt er að kalla fram á skjáinn viðkomandi staði á korti.
Markar þáttaskil
Í frétt frá Landmælingum er haft eftir Gunnari H. Kristinssyni, sölustjóri LMÍ að diskurinn marki þáttaskil fyrir aðgang almennings að Íslandskortum á stafrænu formi. "Í fyrsta sinn býðst fólki aðgangur að kortum á stafrænu formi sem það getur unnið með í tölvunni eins og önnur gögn en fram til þessa hefur aðgangurinn verið takmarkaður við skoðun á kortunum. Auðvelt er að vinna með kortin og möguleikarnir eru mjög miklir," segir Gunnar.
Meðal þeirra valkosta sem bjóðast við skoðun kortanna er mæling fjarlægða og flatarmáls, örnefnaleit og leit að hnitum í mörgum og mismunandi hnitakerfum. Hægt er að skoða kort í mismunandi mælikvörðum samtímis, afrita og skeyta inn í önnur forrit, bæta inn eigin texta og táknum og prenta út kort. Valmyndir hugbúnaðarins í þessari útgáfu eru á ensku en ítarlegar leiðbeiningar á íslensku fylgja í sérstakri handbók.
Mikið notagildi
Meðal mikilvægra valkosta segir Gunnar vera möguleika á skiptingu milli helstu hnitakerfa og ennfremur bjóði diskurinn upp á tengingu við GPS staðsetningartæki þannig að hægt er sjá staðsetningu notandans. "Notagildi kortadisksins er mjög mikið þar sem hér eru saman komnar á einum stað ýmsar aðgengilegar upplýsingar sem áður þurfti að fá af mörgum ólíkum pappírskortum. Við sjáum fyrir okkur að diskurinn nýtist mjög vel í kennslu því þessi framsetningarmáti höfðar til ungu kynslóðarinnar og eykur áhuga og þekkingu þeirra á landinu. Síðast en ekki síst mun diskurinn nýtast í ferðaþjónustu fyrir jafnt stóra sem smáa aðila," segir Gunnar H. Kristinsson.