Kort um ástand fjallvega gefið út á netinu
Vegagerðin hefur gefið út fyrsta kort sumarsins sem sýnir að hvaða marki hálendisleiðir eru opnar fyrir umferð. Í ár verða kortin bara gefin út á netinu en ekki í prentformi eins og verið hefur.
Undanfarin ár hefur nýtt kort verið gefið út á hverjum fimmtudegi og því dreift til þeirra sem stunda ferðaþjónustu, svo sem þjónustuaðila við þjóðveginn, bensínstöðva o.fl. Í frétt frá Vegagerðinni kemur fram að vegna tíðra breytinga á ástandi fjallvega verða kortin fljótt úrelt og nokkur brögð að því að kortin hangi uppi á ferðamannastöðum löngu eftir að þau eru fallin úr gildi. Nú verður kortið uppfært á netinu um leið og færð breytist þannig að það ætti alltaf að vera í takt við ástand fjallvega frá degi til dags.
Nær allar leiðir lokaðar
Á fyrsta korti sumarisns kemur fram að allur akstur er bannaður á öllum hálendisvegum nema í Þórsmörk, Snæfell og upp að Langjökli úr Húsafelli. Kortið má nálgast á þessari vef slóð:
www.vegagerdin.is/vegakerfid/Fjallvegir
Upplýsingar fyrir erlenda ferðamenn
Fyrir erlenda ferðamenn er vert að benda á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar á ensku: www.vegagerdin.is/english/road-conditions-and-weather Aldrei er t.d. of vel brýnt fyrir ferðafólki að virða merkingar um lokun vega. Á meðfylgjandi mynd sem Smári Sigurðsson tók má sjá illa fastan bílaleigubíl á Eyjafjarðarleið fyrir nokkrum árum og þurfti fólkið að ganga um 60 km til byggða, enda var leiðin lokuð og því engin umferð.