Kynning á áhugaverðu doktorsverkefni
Á morgun, föstudaginn 5. desember, mun Gunnþóra Ólafsdóttir flytja erindi á vegum land- og ferðamálafræðistofu við Háskóla Íslands og kynna doktorsverkefni sitt um náttúrutengsl og upplifanir ferðamanna á hálendi Íslands.
Gunnþóra Ólafsdóttir varði doktorsritgerð sína í landfræði við School of Geographical Sciences, University of Bristol en meginmarkmiðið var að rannsaka heilunaráhrif ferðalaga um náttúru Íslands. Breskir ferðamenn í tveimur skipulögðum hópferðum voru til rannsóknar. Kannað var ferlið frá draum ferðamannsins um að fara í ferð til Íslands, ferðalagið sjálft og aftur heim í hið venjubundna líf. Greint var aðdráttarafl náttúru Íslands og ferðalaganna. Tengslakenningum fyrirbærafræðinnar var beitt til að rannsaka hvernig ólíkir ferðamátar ganga og akstur ? leiddu ferðamenn og náttúruna saman á síbreytilegan hátt og hvernig tengslin höfðu áhrif á hvernig fólk skynjaði náttúruna, sjálft sig og líðan sína. Einnig var kannað hvernig orðræða, ímyndir, óskrifaðar reglur, líkami, tækni, grunngerð, ferðaþjónustuaðilar sem skipulögðu og stjórnuðu ferðunum, sem og ?hegðun? náttúrulegra fyrirbæra, tengdust og höfðu einstaklingsbundin áhrif á samband manns og náttúru. Auk þess var sérstök áhersla lögð á að skoða tilurð og áhrif algleymisupplifana.
Kynning doktorsverkefnisins fer fram föstudaginn 5. desember í Odda, Háskóla Íslands, stofu 101, kl. 12.00-13.00. Allir eru hjartanlega velkomnir.