Kynningarfundir á níu stöðum á landinu
Í dag stóð Ferðamálaráð Íslands fyrir kynningarfundum vegna fyrirhugaðs samstarfs sem auglýst var á dögunum um gerð og birtingu auglýsinga sem hvetja landsmenn til ferðalaga innanlands. Fyrir hádegi var fundur í Reykjavík en eftir hádegi voru með aðstoð fjarfundabúnaðar haldnir samtímis fundir á átta stöðum á landinu.
Samningur við RÚV
Á fundunum kynnti Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, fyrirhugað samstarf og þær reglur sem um það gilda. Jafnframt greindi hann frá samningi sem gerður hefur verið við Ríkisútvarpið um verulegan aflátt til þeirra sem auglýsa undir merkjum "Ísland sækjum það heim"
Eins og fram hefur komið hyggst Ferðamálaráð verja 17,5 milljónum króna til umrædds verkefnis á tímabilinu 15. maí 2004 -30. apríl 2005. Fjármunum Ferðamálaráðs er skipt í 25 hluta; 10 að fjárhæð ein milljón króna og 15 að fjárhæð 500.000 krónur. Lágmarksframlag þeirra sem vilja taka þátt er jafnhá upphæð í hverjum hluta. Tekið er við skriflegum umsóknum um samstarf til 30. apríl nk. á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands, Lækjargötu 3, 101 Reykjavík á sértöku eyðublaði sem nálgast má hér á vefnum.