Kynningarfundir tókust vel
Um 100 manns mættu á kynningarfundi sem Ferðamálaráð gekkst fyrir í gær. Þar voru annars vegar kynntar nýjar áherslur í starfi Ferðamálaráðs á sviði umhverfismála og hins vegar reglur um samstarfsverkefni í markaðs- og kynningarmálum í ferðaþjónustu.
Fundirnir voru haldnir á tíu stöðum á landinu. Fyrir hádegi var fundur á Kornhlöðuloftinu í Reykjavík þar sem um 60 manns mættu og rúmlega 45 manns sóttu fundi síðar um daginn sem sendir voru út með fjarfundabúnaði og þannig í raun haldnir samtímis á níu stöðum um allt land. Meðfylgandi mynd var tekin af fundarmönnum á Akureyri.
Samstarfsverkefni í markaðs- og kynningarmálum
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs, fór yfir með hvaða hætti þeim hluta af markaðsfjármuna næsta árs, sem varið verður til samstarfsverkefna á erlendri grundu, verður ráðstafað. Fjallaði hann m.a. um skiptingu fjármunanna á markaðssvæði, hvaða skilyrði væntanlegir samstarfsaðilar þurfa að uppfylla, o.s.frv. Grundvöllur samstarfsins er að framlag samstarfsaðila verði a.m.k. jafnt framlagi Ferðamálaráðs til umræddra verkefna. Ferðamálaráð hefur til ráðstöfunar 175 milljónir króna til þessara verkefna þannig að heildarupphæð kynninganna verður a.m.k. tvöföld sú upphæð þegar framlag umsækjenda bætist við. Umsóknarfrestur er til 26. janúar næstkomandi. Nánar
Nýar áherslur í umhverfismálum
Valur Þór Hilmarsson umhverfisfulltrúi fór á fundunum yfir nýjar áherslur í starfi Ferðamálaráðs á sviði umhverfismála. Þar kom fram að til þessa hefur fjármagni til málaflokksins í megindráttum verið tvískipt. Um fimmtungi þess hefur verið úthlutað í formi tiltölulega lágra styrkja en afganginum verið varið til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum þar sem Ferðamálaráð hefur sjálft séð um framkvæmdir í samvinnu við fleiri aðila. Meginbreytingin nú felst í því að bróðurparti fjármunanna verður úthlutað í styrkjaformi. Með þessari nýju leið er verið að leitast við að nýta sem best útsjónarsemi þeirra sem að viðkomandi verki standa og um leið að auka ábyrgð þeirra. Umsóknarfestur er til 16 janúar næstkomandi. Nánar