Kynnisferðir hlutu starfsmenntaviðurkenningu SAF
Starfsmenntaviðurkenning SAF – Samtaka ferðaþjónustunnar 2011 var afhent í fjórða sinni á Degi menntunar í ferðaþjónustu sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðinn föstudag. Kynnisferðir, sem hlutu verðlaunin fyrir metnaðarfulla fræðslu- og endurmenntunaráætlun fyrirtækisins, hafa með skýrri sýn lagt áherslu á mikilvægi starfsmenntunar í allri starfsemi sinni með það að markmiði að auka starfsánægju og síðast en ekki síst til að ná samkeppnisforskoti og auka arðsemi í rekstri fyrirtækisins.
Í stefnu SAF á sviði fræðslu og menntamála kemur fram að eitt af höfuðmarkmiðum sé að bæta arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og að hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til menntunar, símenntunar og þjálfunar. Dagur menntunar í ferðaþjónustu er liður í ofangreindum markmiðum þ.e. að vekja athygli atvinnurekanda á mikilvægi menntunar, símenntunar og þjálfunar starfsfólks.
Mynd: Frá afhendingu Starfsmenntaviðurkenningar SAF. Frá vinstri Árni Gunnarsson, formaður SAF, Sigríður Ásta Hallgrímsdóttir, Agnar Daníelsson, Helga Bryndís Jónsdóttir, Þórarinn Þór, Einar Steinþórsson, Kynnisferðum, Katrín Júlíusdóttir, ferðamálaráðherra og María Guðmundsdóttir, upplýsinga- og fræðslufulltrúi SAF.