Líflegur fundur á Akureyri
Í gær fundaði Ferðamálaráð Íslands á Akureyri. Um var að ræða 649. fund ráðsins frá upphafi en fyrsti fundurinn var haldinn á Hótel Borg 7. júlí árið 1964. Seinnipartinn í gær gekkst Ferðamálaráð síðan fyrir opnum fundi um ferðamál.
Aukning hér en samdráttur hjá öðrum
Um 40 manns mættu á opna fundinn sem haldinn var á Hótel KEA. Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, setti samkomuna og flutti framsögu en síðan tók Magnús Oddsson ferðamálastjóri við. Fór hann yfir hlutverk og starfsemi Ferðamálaráðs og fjallaði um stöðu og horfur í ferðamálum í lok sumars. Ýmislegt áhugavert kom fram í erindi Magnúsar, m.a. að ferðamarkaður á Íslandi hefur verið í aukningu það sem af er árinu á meðan nágrannalönd okkar á Norðurlöndunum mega sætta sig við samdrátt. Að því loknu var opnað fyrir fyrirspurnir þar sem fulltrúar í Ferðamálaráði ásamt ferðamálastjóra sátu fyrir svörum, eins og auglýst hafði verið í fundarboði.
Vísindaveiðarnar ræddar
Líkt og við var að búast voru nýhafnar vísindaveiðar á hrefnu fundarmönnum ofarlega í huga. Sem kunnugt er hafa margir aðilar í ferðaþjónustu, ekki síst þeir sem stunda hvalaskoðun, líst yfir verulegum áhyggjum vegna þessa og mótmælt harðlega. Líflegar en málefnalegar umræður spunnust um málið í gær og þær spurningar sem ferðaþjónustuaðilar beindu til ferðamálaráðsmanna um afstöðu þeirra til vísindaveiðanna. Formaður Ferðamálaráðs sagði m.a. að málið hefði verið til umfjöllunar á fundi ráðsins fyrr um daginn. Benti hann á að fulltrúar í ráðinu kæmu í raun úr fjórum áttum og því eðlilegt að þeir hefðu ekki allir sama viðhorf til vísindaveiðanna.
Auk hrefnuveiðanna voru markaðsmál ferðaþjónustunnar talsvert til umfjöllunar og hin sígilda spurning hvernig hægt væri að auka umsvifin í ferðamennsku utan háannatímans, ekki síst utan sv-hornsins.