Loftferðasamningur á milli Íslands og Indlands í burðarliðnum
Samkomulag hefur náðst við indversk stjórnvöld um efni loftferðasamnings milli Íslands og Indlands. Var bókun um niðurstöður samningsgerðarinnar undirrituð í Ráðherrabústaðnum í gær að viðstöddum dr. A.P.J. Abdul Kalam forseta Indlands og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra.
Samningurinn ásamt viðauka og bókun felur m.a. í sér heimild fyrir tilnefnd flugfélög til að fljúga allt að 14 ferðir í viku milli landanna með tengingum við annað flug þ.e. bæði viðkomum á leiðinni og flugi áfram til annarra áfangastaða. Þá er staðfest í bókuninni heimild til að stunda fragtflug eftir þörfum svo og víðtæk heimild til að fljúga með ferðamannahópa í svonefndum pakkaferðum. Segir utanríkisráðuneytið, að um sé að ræða einn hagkvæmasta loftferðasamning sem gerður hafi verið af Íslands hálfu.
Samkvæmt bókuninni sem nú var undirrituð verður samningnum fylgt hér eftir meðan lokaundirbúningur að formlegri undirritun hans stendur yfir en miðað er við að undirritunin fari fram síðar á þessu ári.
Að samningsgerðinni unnu utanríkisráðuneytið, samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn auk sendiráðsins í London. Fulltrúar flugrekenda voru til ráðgjafar við samningsgerðina. -- Í samninganefndinni voru þau Ólafur Egilsson, sendiherra, formaður, Sverrir H. Gunnlaugsson, sendiherra gagnvart Indlandi, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Kristín Helga Markúsdóttir lögfræðingur og Ástríður S. Thorsteinsson lögfræðingur. Fulltrúar flugrekenda voru þeir Einar Björnsson og Sveinn Zoega frá Air Atlanta Icelandic, Þórarinn Kjartansson og Bjarki Sigfússon frá Bláfugli, Pétur J. Eiríksson frá Icelandair Cargo, og Gunnar Már Sigurfinnsson og Hrafn Þorgeirsson frá Icelandair.