Lonely Planet setti Vestfirði í efsta sætið
Vestfirðir fengu nýlega viðurkenninguna Best in Travel og eru þar með efstir á lista yfir lönd, svæði og borgir til að heimsækja árið 2022 samkvæmt vali ferðabókarútgefandans Lonely Planet.
Í tilkynningu frá Vestfjarðarstofu segir m.a. að val Lonely Planet muni beina kastljósi heimsbyggðarinnar að Vestfjörðum sem muni reynast mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og Ísland almennt.
„Ég hef oft sagt að Vestfirðir eigi mikið inni þegar að kemur að ferðaþjónustu og þarna sjáum við það alveg svart á hvítu að þetta einstaka svæði sker sig úr í samkeppni við alla rómuðustu áfangastaði heimsins,“ sagði Díana Jóhannesdóttir hjá Vestfjarðarstofu sem var að vonum yfir sig ánægð með viðurkenninguna.
Ferðamálastofa óskar Vestfirðingum innilega til hamingju með glæsilegan árangur og viðurkenningu.