Málstofa um gerð þjóðhagslíkans fyrir ferðaþjónustuna - upptaka
Ferðamálastofa og Hagrannsóknir sf. héldu málstofu fyrir fræðifólk um gerð þjóðhagslíkans fyrir ferðaþjónustuna þann 15. maí 2023. Fyrirlestrar sérfræðinga Hagrannsókna á líkanasmíðinni voru teknir upp og eru aðgengilegir hér neðst í fréttinni.
Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, opnaði málstofuna með nokkrum orðum um verkefnið og þýðingu þess fyrir hagstjórn og ákvarðanatöku í greininni.
Marías H. Gestsson, lektor við HÍ, og Eðvarð I. Erlingsson, hagfræðingur og stundakennari við HÍ, kynntu þjóðhagslíkön fyrir íslenska ferðaþjónustu. Annars vegar er um að ræða sjálfstætt þjóðhagslíkan með ferðageira, sérhannað fyrir íslenska hagkerfið (sjá meira hér). Hins vegar er um að ræða útvíkkun á QMM spálíkani Seðlabanka Íslands/Hagstofu Íslands þannig að það taki tillit til hlutverks ferðaþjónustunnar. Þetta er gert með því að koma fyrir í líkaninu ferðaþjónustugeira, þannig að unnt sé að skoða áhrif ferðaþjónustunnar í hagkerfinu - og öfugt (sjá meira hér). Líkön þessi má nota til að skoða áhrif skella í ferðaþjónustu á hagkerfið og almennt gagnvirk áhrif ferðageirans og hagkerfisins. Tilgangurinn er m.a. að bæta hagstjórn, stefnumótun og aðra ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum, fyrirtækjum í ferðaþjónustu og öðrum sem eiga hagsmuna að gæta.
Þessi þjóðhagslíkanagerð er hluti af rannsóknarverkefni sem Hagrannsóknir sf tóku að sér að vinna fyrir Ferðamálastofu í framhaldi útboðs haustið 2020 og hafa unnið að í rúmlega tvö ár.
Smíði beggja líkana er á lokastigi og málstofan bauð upp á tækifæri fyrir gesti til að koma með athugasemdir og tillögur um hvernig hugsanlega megi bæta þau og efla gagnsemi verkefnisins.
Fundarstjóri var Dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent við HÍ.
- Þjóðhagslíkan með ferðaþjónustugeira - Upptaka frá málstofu
(Ath. Til að fá aðgang að upptökunni þarf að slá inn kóðann: h0+Ehic4)