Málþing um Vatnajökulsþjóðgarð og Jöklasetur
Háskólasetrið á Hornafirði, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Menningarmiðstöð Hornafjarðar halda málþing um Vatnajökulsþjóðgarð og Jöklasetur á Hornafirði föstudaginn 17. janúar nk. kl. 15:00-19:00. Málþingið verður haldið í ráðstefnusal Nýheima á Höfn og er öllum opið.
Í fréttatilkynningu um málþingið kemur fram að umræðan um þjóðgarða eykst stöðugt í þjóðfélaginu. Nú þegar ári fjalla er lokið eru sjálfsagt margir að velta fyrir sér hvar stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er á vegi stödd. Á málþinginu verður gerð grein fyrir stöðu og horfum þjóðgarðsverkefnisins og ræddar hugmyndir um eflingu rannsókna og atvinnutækifæra sem Vatnajökulsþjóðgarður hefði í för með sér.
Þjóðgarðar í sunnanverðri Afríku verða kynntir og rætt hvaða lærdóm er hægt að draga af þeim. Einnig verður gerð grein fyrir stöðu Jöklaseturs á Hornafirði og hugmyndir um frekari uppbyggingu þess ræddar.
Þá verður kynnt skýrsla ársins 2003 úr rannsóknarverkefninu Vatnajökulsþjóðgarður: Náttúruvernd og atvinnulíf grannbyggða, þar sem meðal annars er að finna niðurstöður ítarlegra viðtala við fjölmarga íbúa. Stutt kynning verður einnig á fyrirhuguðu þverfaglegu verkefni um sambúð manns og náttúru umhverfis Vatnajökul.