Markaðsátak í Evrópu 2009
Ath. Umsóknarfrestur rann út 25. febrúar og úthlutun hefur farið fram.
Ferðamálastofa auglýsir eftir tillögum að samstarfsverkefnum til markaðssetningar íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu. Um er að ræða verkefni sem dreifast á þrjú meginmarkaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu: í Bretlandi, á meginlandi Evrópu og á Norðurlöndum.
Heildarráðstöfunarfé Ferðamálastofu til samstarfsverkefnanna eru 70 milljónir króna, sem skiptast munu með eftirfarandi hætti:
- Til þriggja verkefna, eitt á hverju markaðssvæði, þar sem framlag Ferðamálastofu nemur 10 millj.kr. að hámarki.
- Til fjögurra verkefna, þar sem framlag Ferðamálastofu nemur 5 millj.kr. að hámarki.
- Til tíu verkefna, þar sem framlag Ferðamálastofu nemur 2 millj.kr. að hámarki.
Eftirfarandi grunnforsendur verða lagðar til grundvallar mati á verkefnum:
- Um sé að ræða almenn markaðs- og kynningarverkefni, sem hvetji neytendur til Íslandsferða.
- Markmið verkefnis skulu vera skýr og hnitmiðuð.
- Þeir markhópar sem verkefnið beinast að skulu skilgreindir með skýrum hætti.
- Fjárhagsáætlun sé skýr og fylgi með umsókn.
- Tímaáætlun liggi fyrir, en gert er ráð fyrir að fjármunir nýtist í síðasta lagi til markaðssetningar á hausti 2009.
- Lagt verði mat á það hverju verkefnið gæti hugsanlega skilað, m.a. með tilliti til útbreiðslu þeirra miðla sem um ræðir og markhópa sem verkefnið beinist að.
- Greint verði frá því með hvaða hætti árangur verði metinn að verkefni loknu, en kallað verður eftir slíku árangursmati.
- Um sé að ræða verkefni sem ekki hefur þegar verið gert ráð fyrir í markaðsáætlunum umsækjenda.
Umsóknareyðublað
Umsóknum skal skilað á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt að sækja hér á vefnum (sjá hér neðst á síðunni). Umsóknum má skila á íslensku eða ensku. Umsóknarfrestur er til 25. febrúar 2009. Hvatt er til þess að aðilar sameinist um verkefnatillögur.
Umsóknir verða metnar af úthlutunarnefnd á grundvelli ofangreindra atriða og er gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir 10. mars 2009. Ákvarðanir verða teknar á grundvelli ofangreindra forsendna og verður fyllsta jafnræðis gætt við mat á tillögum. Framlag Ferðamálastofu getur aldrei numið hærra hlutfalli en 50%. Ferðamálastofa hefur umsjón með verkefninu og samningagerð við samstarfsaðilana.
- Sækja umsóknareyðublað - Íslenska (Excel-skjal)
- Sækja umsóknareyðublað - Enska (Excel-skjal)
- Auglýsing á ensku um markaðsátakið (PDF)