Markaðsátak í ferðamálum í haust og vetur
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tilkynnti í gær um að allt að 100 milljónum króna verður varið í sérstakt átak á næstu mánuðum til að markaðssetja Ísland erlendis sem áhugaverðan áfangastað í haust og vetur. Um er að ræða samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og fyrirtækja í ferðaþjónustu undir forystu Ferðamálastofu.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Ólöf Ýrr |
Auglýsingaherferð á helstu vetrarmörkuðum
Ferðamálastofa hefur umsjón með markaðsátakinu og er undirbúningur þess á lokastigi. Verður fjármununum einkum varið til auglýsingaherferða á helstu vetrarmörkuðum ferðaþjónustunnar; í Bandaríkjunum, annarsstaðar á Norðurlöndunum, Bretlandseyjum og helstu markaðssvæðum á meginlandi Evrópu. Ekki er um styrki að ræða til einstakra ferðaþjónustuaðila, heldur almennt markaðs- og landkynningarverkefni sem ætlað er að auka áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi sem áfangastað á næstu misserum.
Styrkja enn frekar rekstrargrundvöll ferðaþjónustunnar
Markaðssetning á Íslandi utan háannatímans hefur verið að skila góðum árangri og hefur orðið til þess að styrkja enn frekar rekstrargrundvöll ferðaþjónustunnar innanlands. Í ljósi þess samdráttar sem blasir nú við í ferðalögum á heimsvísu er hins vegar nauðsynlegt að spýta í lófana. Vegna gjaldeyrisþróunarinnar undanfarið er jafnframt sóknarfæri á erlendum mörkuðum fyrir ferðaþjónustuna þar sem mun hagkvæmara er nú fyrir erlenda ferðamenn að ferðast til Íslands en verið hefur.